Arnfríður Arnmundsdóttir Með nokkrum orðum langar okkur að minnast vinkonu okkar, Arnfríðar. Leiðir okkar lágu saman fyrir u.þ.b. 10 árum í dönskudeild Háskóla Íslands. Þá hafði Arnfríður nýlokið stúdentsprófi frá öldungadeild og hélt ótrauð áfram náminu, og var aldursforseti í deildinni þetta árið. Þar hófst okkar vinskapur sem hélst fram á hennar síðasta dag. Líklega höfum við því kynnst henni á annan hátt en flestir þeir sem nú syrgja hana, því að alveg eins og hjá því unga fólki sem er að hefja háskólanám þá var helsta umræðuefni okkar námsefnið og það sem því fylgdi. Arnfríður var mikil námsmanneskja og sætti sig aldrei við annað en að ná hámarksárangri. En alltaf kveið hún mikið fyrir prófum, því að sjálfstraustið var ekki alltaf í samræmi við getu. Og gaman var svo að fagna með henni í Skálholti að loknu prófi.

Það má segja að hún hafi verið af þeirri kynslóð þegar sjálfsagt þótti að karlmenn nýttu sína hæfileika til náms á meðan konum var ætlað það hlutverk að vera fyrst og fremst eiginkona og móðir. Þannig hefur henni þótt sjálfsagt að styðja bónda sinn og fylgja honum þangað sem störf hans leiddu hann, og hefur ekki farið að huga að eigin löngunum og getu til mennta fyrr en eftir að synir þeirra voru vaxnir úr grasi. Og það jafnvel þótt hún væri slík námsmanneskja og fræðimaður í eðli sínu sem raun bar vitni. Hugmyndaflug skorti hana heldur ekki, og að námi loknu byrjaði hún að skrifa skáldsögu sem hún lauk þó aldrei við. Hún hefði eflaust haft ýmislegt fram að færa fyrir land og þjóð hefði hún fengið að njóta ávaxtanna af námi sínu og hefði haft tækifæri til að sýna hvað í henni bjó á því sviði. En veikindi Jónasar og síðar hennar sjálfrar komu í veg fyrir það. Aldrei heyrðum við hana þó tala um það, enda hafði hún ef til vill miklu minni trú á eigin verðleikum en þeir sem í kringum hana voru.

Hvorug okkar hefði trúað því fyrir 10 árum að Arnfríður yrði öll svona skjótt, aðeins hálfu ári eftir lát Jónasar. Hún sem alltaf virtist svo hraust og ungleg varð á svo skömmum tíma að láta undan því meini sem leiddi hana til dauða. En aldrei heyrðist hún æðrast eða láta í ljós kvíða fyrir endalokunum, enda trúuð kona.

Með Arnfríði er gengin merkiskona, heimskona, gestgjafi góður og ekki síst gáfukona. Megi hún hvíla í friði.

Aldís Sigurðardóttir og Margrét Kolka.