KRISTJÁN VERNHARÐUR ODDGEIRSSON

Kristján Vernharður Oddgeirsson fæddist 8. nóvember 1915 að Hlöðum á Grenivík. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hinn 11. maí síðastliðinn. Faðir hans var Oddgeir skipstjóri á Grenivík, f. 23.10. 1880, d. 1971, Jóhannsson í Saurbrúargerði austan Eyjafjarðar, frá Stekkjarflötum í Skagafirði Gíslasonar; móðir Oddgeirs var Kristín Sigurðardóttir Bjarnasonar frá Fellsseli í Köldukinn. Móðir Kristjáns Vernharðs var Aðalheiður, f. 9.11. 1885, d. 1977. Kristjánsdóttir frá Hróarsstöðum í Fnjóskadal Guðmundssonar (Reykjadalsætt úr Fnjóskadal). Kristján og Lísbet bjuggu að Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Móðir Aðalheiðar var Lísbet Bessadóttir frá Skógum í Fnjóskadal. Móðir Lísbetar var Margrét frá Heiðarhúsum á Flateyjardalsheiði Jónsdóttir. Bessi var Eiríksson hins sterka frá Steinkirkju. Oddgeir og Aðalheiður bjuggu á Hlöðum á Grenivík og var Kristján Vernharður sjötti í röð tólf barna þeirra hjóna. Systkinin eru: 1) Agnes, gift Jóni Björnssyni, bæði látin. 2) Alma, býr í hárri elli á Grenivík, var gift Ísak Vilhjálmssyni, hann er látinn. 3) Aðalheiður, bjó á Akureyri, var gift Alfreð Pálssyni, bæði látin. 4) Björgólfur, dáinn eins mánaðar. 5) Jóhann Adolf, skipstjóri búsettur á Grenivík, lést 5. apríl sl., kvæntur Steinunni Guðjónsdóttur. 6) Fanney, býr á Akureyri, gift Jóhanni Konráðssyni, söngvara, hann er látinn. 7) Hlaðgerður, bjó lengst af á Raufarhöfn, gift Birni Friðrikssyni, verslunarmanni. 8) Margrét, býr í Kópavogi, gift Grími Björnssyni, tannlækni. 9) Sigríður, býr í Reykjavík, gift Eric Steinssyni, lögregluþjóni. Tvíburi við Sigríði er 10) Hákon, býr í Reykjavík, málari og söngvari, kvæntur Fridel Oddgeirsson. 11) Björgvin, skipstjóri kvæntur Láru Egilsdóttur, þaru eru búsett á Seltjarnarnesi. Útför Kristjáns Vernharðs fer fram frá Grenivíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.