Grímur Jónsson Ástkær frændi okkar og vinur Grímur Jónsson er látinn eftir langa baráttu við krabbamein. Okkur systkinin langar til að minnast hans með fáeinum orðum.

Kynni okkar af Grími hófust í bernsku okkar og má segja að hann hafi alltaf verið hluti af okkar lífi. Hann var móðurbróðir okkar og jafnframt uppáhaldsfrændi. Tengsl fjölskyldnanna hafa alltaf verið náin. Á uppvaxtarárum okkar starfaði hann við radar Flugmálastjórnar í Hnífsdal. Hann var þá heimagangur á heimili foreldra okkar, kom við daglega, fékk sér kaffi og sígarettu og lét gamminn geisa. Hann var hár og grannur með óstýrilátt hár og gekk um gólf meðan hann talaði. Frásagnagleði hans, orðsnilld og kímni voru einstök og hreif hann þá með sem á hlýddu. Það sama gilti um okkur systkinin, sem gleymdum að borða og störðum opinmynnt á Grím og gleyptum í okkur hvert orð. Það voru ógleymanlegar stundir.

Stærstan hluta starfsævi sinnar vann Grímur við loftskeytastörf. Náði starfsvettvangurinn frá Norður-Íshafi, austur til Japans og suður til Líbýu en þar vann hann um skeið við að "búa til rigningu handa Ghaddafi" eins og hann lýsti því sjálfur. Líbýuferðin bætti enn frekar í sagnabrunn Gríms sem af flestum var talinn sneisafullur fyrir. Grímur frændi átti sér ótal áhugamál. Meðal annars stundaði hann gæsarækt í Hnífsdal og fengum við systkinin stundum að aðstoða hann við að fóðra gæsirnar, þó að okkur hafi staðið stuggur af þessum illskeyttu kvikindum. Á tímabili var hann með nokkra kálfa vestur á Gilsbrekku og var stjanað við þá eins og þeir væru á fimm stjörnu hóteli. Á heimili hans og Jóhönnu var skrautlegt samansafn gæludýra; hundur, köttur, páfagaukur, skjaldbaka og taminn hrafn svo að eitthvað sé nefnt. Hann var sannur dýravinur og barðist hatrammlega gegn þeim hugsunarhætti að dýr hafi ekki tilverurétt nema hægt sé að éta þau. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Grím. Hann var skapmikill, hafði ríka réttlætiskennd og sagði álit sitt umbúðalaust. Hrokafullir embættismenn fóru einkanlega fyrir brjóstið á honum og átti hann mjög erfitt með að sitja aðgerðarlaus þegar honum þótti yfirvöld ganga of langt gagnvart samborgurum sínum. Þá stakk hann gjarnan niður penna, og gat sá verið æði beittur.

Margir vinir Gríms áttu þar Hauk í horni. Hann átti ófáa skjólstæðinga, sem leituðu til hans með hin ólíkustu vandamál, s.s. frágang skattskýrslna, bókhaldsóreiðu og landamerkjadeilur. Þegar vandamálið var komið í hendurnar á Grími unni hann sér ekki hvíldar fyrr en það var leyst. Handlagni Gríms átti sér engin takmörk. Þegar rafmagnstæki kom úr "viðgerð" frá rafmagnsverkstæði með uppáskrifað dánarvottorð var Grímur ekki í rónni fyrr en hann var búinn að líta á gripinn. Er skemmst frá því að segja að "upprisa" rafmagnstækja var nokkuð tíð á þeim heimilum þar sem Grímur leit inn til að fá sér kaffisopa. Okkur eru minnisstæðar heimsóknirnar á Engjaveginn til Jóhönnu og Gríms í gamla daga. Þar var alltaf opið hús og iðaði allt af lífi. Barnahópurinn var stór og auk þess var fjölmargt vina og vandamanna ­ svo ekki sé minnst á ferfætlingana. Einnig minnumst við sumardaganna á Gilsbrekku þar sem við frændsystkinin og foreldrar okkar áttum margar góðar stundir við berjatínslu, kræklingasuðu og veiði. Sjúkraganga Gríms var löng og erfið. Loksins þegar sjúksdómsgreiningin lá fyrir, tók við erfið lyfja- og geislameðferð. Við veltum því fyrir okkur hvort hafi farið verr með hann, sjúkdómurinn eða "lækningin". Grímur var tilfinningaríkur og viðkvæmur maður og honum fannst læknar hafa brugðist sér. Nú þegar Grímur er allur, hljótum við sem fylgdumst með þrautagöngu hans, að velta því fyrir okkur hversu oft læknar grípa til sjúkdómsgreiningarinnar "móðursýki" þegar þeir hafa ekki vilja eða getu til að finna meinið. Stundum snýst umræða þjóðarsálarinnar eingöngu um auknar fjárveitingar og fleiri tæki en oft vantar kannski fyrst og fremst mannlega þáttinn.

Við minnumst elskulegs frænda okkar með hlýju og þakklæti fyrir allar samverustundirnar sem við áttum með honum. Jafnvel undir það síðasta gat hann látið okkur gráta af hlátri. Skarðið sem Grímur frændi skilur eftir sig verður vandfyllt. Hann var einstaklega hæfileikaríkur maður, en þó breyskur eins og gjarnt er um eldhuga. Við vitum að honum líður vel þar sem hann er núna og eitt er víst ­ þar verður engin lognmolla.

Við sendum fjölskyldu Gríms frænda innilegar samúðarkveðjur.

Guðbjörg, Páll og Jón Áki Leifsbörn.