Valgerður Daníelsdóttir Það er laugardagur í upphafi hvítasunnuhelgar. Í dag fylgjum við móður minni, Valgerði, til grafar, þar sem hún verður lögð til hinstu hvíldar við hlið pabba í Selfosskirkjugarði. Þau eru nú sameinuð á ný eftir ellefu ára aðskilnað, en hann lést á nánast sama árstíma 1988.

Mig langar að minnast mömmu nokkrum orðum og reyndar þeirra beggja. Þegar hugsað er til baka hrannast minningarnar upp og þá er vandi að velja hvað setja á í litla minningagrein. Mamma og pabbi byrjuðu sinn búskap í Gíslholti í félagi við Kristin bróður pabba og föður þeirra, þar fæddust þeim tvö fyrstu börnin, þeir Daníel Rúnar og Haukur. Kringum 1940 keyptu þau jörðina Ketilsstaði sem var þeirra heimili næstu þrjátíu árin. Ketilsstaðir voru fremur landlítil jörð og illa húsum búin þegar þau tóku við henni, en með mikilli vinnu og þrautseigju tókst þeim að breyta þessu. Það var mikið ræktað, byggt upp íbúðar- og útihús og bústofninn stækkaður smátt og smátt. Að lokum var þetta orðið að góðu býli sem skilaði góðum afurðum. Eins og aðrir af þessari kynslóð upplifðu þau geysilega miklar breytingar í atvinnuháttum og öllum aðbúnaði á heimilum til sveita, líklega meiri breytingar en orðið hafa á mörgum öldum þar á undan. Ég nefni sem dæmi alla þá tækni við heyskap sem nú er en var óþekkt í upphafi búskapar þeirra, ég nefni rafmagnið sem kom eftir tuttugu ára búskap, síminn litlu fyrr og svo mætti lengi telja. Það skiptust á skin og skúrir í lífi þeirra á Ketilsstöðum. Eftir stuttan búskap urðu þau fyrir því að missa sitt fyrsta barn, Daníel Rúnar sem þá var á sjötta aldursári, úr sjúkdómi sem þá var ekki hægt að greina eða lækna, en sem ef til vill væri hægt í dag. Það er eflaust sú sárasta reynsla sem nokkur getur orðið fyrir, að missa barnið sitt, og held ég að þetta hafi sett nokkurt mark á sálarlíf þeirra alla tíð, þó að sjálfsagt hafi fennt í dýpstu sporin. Á Ketilsstöðum fæddumst við þrjú yngstu börnin. Fjölskyldan var númer eitt, tvö og þrjú alla tíð hjá foreldrum mínum og núna spannar þessir hópur yfir hálft hundrað. Þau fylgdust með hverjum og einum, stórum sem smáum og aldrei leið sá afmælisdagur hjá neinum að þau minntust þess ekki með einhverjum hætti. Gestrisnin fylgdi þeim alla tíð og var nánast útilokað að nokkur færi úr húsi frá þeim án þess að hafa þegið a.m.k. kaffibolla eða konfektmola. Mamma hafði alla tíð mikinn metnað fyrir öllu námi og fannst mér oft skína í gegn að hún hefði viljað læra meira sjálf en kostur var á, á þeim tíma. Sérstakt gildi virtist stúdentsnámið hafa fyrir hana og benti hún oft stolt á allar myndirnar af barnabörnunum með hvítu kollana sem héngu á veggjum hennar. Mamma var félagslynd að eðlisfari og eignaðist alls staðar góða vini, hvar sem hún var. Hún var lengi starfandi í kvenfélaginu Einingu í Holtahreppi og formaður þess um árabil.

Í minningunni held ég að mamma hafi verið afskaplega léttlynd og hláturmild. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar þær hittust hún og Óla mágkona hennar í Guttormshaga, þá var hlegið svo undir tók í húsinu.

Síðustu þrjátíu árin hefur mamma átt við heilsuleysi að stríða og eru sjúkrahúsdvalirnar ófáar þennan tíma. Hún tók þessu af æðruleysi og alltaf var hún jafn þakklát þeim sem önnuðust hana á hverjum stað. Nú síðustu árin dvaldi hún á Dvalarheimilinu Lundi, þar sem annast var svo frábærlega vel um hana að betra gæti varla verið. Eru starfsfólki og vistmönnum hér með færðar innilegar þakkir.

Elsku mamma! Það er komið að leiðarlokum. Við kveðjum þig með virðingu og þakklæti í huga.

Hvíl í friði.

Garðar og fjölsk.