Sveinbjörg Brandsdóttir Vinnuhjúaskildagi - og langri vist að ljúka hjá þér elsku Sveinbjörg mín. Jarðvist sem einkennst hefur af trúmennsku, gæsku og nærgætni. Lotningu fyrir lífinu. Og þó þú hafir ætíð, eins og ræktunarmanninum er tamast, horft til framtíðar gættir þú þess alla tíð að taka mið af fortíðinni - reynslunni. Varðveittir hana, geymdir með þér minningarnar góðu svo þær urðu þér ekki aðeins ljóslifandi heldur að ljósi að lýsa þér veg í gegnum vetrarmyrkrið. Því er það í þínum takti að hafa vistaskipti við vinnuhjúaskildaga, að hnýta um föggur þínar og halda til hans Einars vitandi og viss um að hann vænti þín til að hlú að brumi og blómum á völlum hins eilífa vors, þar sem hann hefur beðið þín svo lengi. Og ég sé fyrir mér að hann er þess albúinn að að pæla með þér beð og bera að steina til skjóls og skrauts. Allt eins og forðum tíð í Runnum. Og ég heyri líka eins og óm af ljúfum söng hans og Bræðranna þér til heiðurs þegar þú nálgast ykkar nýju Runna. Lítinn hlýlegan bæ og garð sem bíður þess að verða alsettur blómum þínum og trjám ykkar - bíður þess að verða lofsöngur ykkar til fegurðar lífsins og eilífa lífsins.

Ljúfur ómur loftið klýfur

lyftir sál um himingeim.

Þýtt á vængjum söngsins svífur

sálin glöð í friðarheim.

Á þessum vega- og tímamótum koma fram í huga manns mörg minningarbrot, allt frá fyrstu kynnum okkar fyrir nær þremur áratugum. Stundirnar þá með ykkur Einari í fjósinu heima í Runnum. Natni ykkar við skepnurnar hvort heldur voru kýr, kindur, hross eða hænur er mér minnisstæð. Já - gamla fjósið milli fjóss og bæjar og hæsnakofinn sem var rétt eins og til að taka í fang sér, báru einstakri nægjusemi vitni. Hlýlegur bærinn, þröngur í efnislegu tilliti, en víður vegna viðmóts ykkar líkt og tilheyrði garðinum. Á þessum árum voru stundirnar með ykkur, ungum kennara brunnur að sækja sér orku í. Árin liðu, og ég eignaðist fjölskyldu, konu og svo börnin eitt af öðru. Öll hafa þau notið sama þels. Öllum hefur þeim verið það sama tilhlökkunin og endurnýjunin að koma í Runna. Öllum alltaf tekið á sínum forsendum. Rætt um lífið og tilveruna, skólamál, hross, blóm eða leikið að gullunum þínum litlu, en dýrmætu, dúkkunum sem þú hafðir prjónað. Persónur sem heilluðu börnin. Að ógleymdum pönnukökum og öðru góðgæti. Það þurfti ekki stórviðburð til að þú efndir til veislu. Í raun varði veisla hjá þér alla tíð og langt um lengur en heilsa leyfði. Gestrisni þín og ykkar var einstök og ég minnist þess, að þegar við vorum með hesta á húsi hjá þér var það órjúfanlegur þáttur þeirrar umhirðu að setjast um stund að borði þínu. Einhverju sinni hafði ég ákveðið að reyna að léttast til muna. Vildi því ekki þiggja neina hressingu og fannst ég snjall þegar ég svaraði boði þínu með því að segja að "hungur hefði ekki rekið mig til þín". En þú lést ekki heyra þetta og næsta dag er ég kom, hafðir þú útvegað þér og barst fyrir mig stóra flösku af kókakóla og konfekt, og sagðir að mér væri óhætt að borða það, því "þetta er mestmegnis loft og af því fitnar enginn". En trúmennska þín var gegnheil. Það kristallaðist í mörgu. Einar hafði síðustu árin látið sér einstaklega annt um hrossin. Átti vafalaust hægara með að mylgra í þau úti við eftir að heilsu hrakaði. Þegar hann féll frá gekkst þú í það verk hans eins og annað sem þá þurfti að gera. Það var gaman að fylgjast með þér þá, hvernig þú vannst traust ótaminna hryssanna og ungviðis sem þó var ekki vant þér heldur honum. Sér í lagi þegar haft er í huga að háttalag Einars í umgengni við þessu stóru gæludýr hans var afar sérstakt. Í þessu birtist næmleiki þinn á lífið og vilji til að mæta þessum málleysingjum á þeirra forsendum og þess manns er þú unnir út yfir öll endimörk. Enda fór það svo að hrossin urðu þínir vinir, sem biðu og kumruðu þegar þú nálgaðist. Það var líka gaman að ganga innan um hópinn er hryssurnar komu nýkastaðar heim á hlað á vorin að sníkja sér tuggu um leið og þær voru að sýna þér folöldin sín, stoltar og varfærnar, en þó fullar trausts. Þá var gaman að heyra þig velta fyrir þér hvert lofaði mestu. Og ekki síður að heyra að það var eins og þú hefðir Einar með í ráðum. Hann Einar minn hafði nú alltaf trú á henni Stjörnu, eða Fallegu Jörp eða Bleikblesu. Þannig var hann ætíð nálægur. Og það var gott. Síðast nú, morguninn sem þú lagðir upp í þína hinstu för spurði næst- yngsta barnið mitt hvenær þú kæmir heim í Runna. "Það er svo gaman að heimsækja Sveinu í Runnum" og þegar ég efaðist um að það væri komið að því sagði barnið að bragði "jú, hún getur það alveg, Imma verður bara hjá henni". Þannig veit ég að þín verður sárt saknað elsku Sveina mín. Fyrir góðvild þína og fyrir gjafmildi þína munum við sakna þín. En um leið erum við þakklát þér fyrir þessa kosti dagfars þíns. Okkur sem þess nutum að heyra þig segja frá vinkonum frá því í æsku, því þegar þú varst barnfóstra og síðar kennari. Vorhretum, afmælum og orgelnámi, nú eða nýlesinni bók. Það var líka dýrmætt að heyra hversu auðvelt þér reyndist að ferðast í seinni tíð, en vera þó oftast í garðinum þínum. Ætíð spurðir þú frétta af börnum, mínum og barnabörnum þínum og fylgdir þeim heimshorna á milli. Og öllum sýndir þú sama áhuga og umhyggju. Þetta hefur verið þeim mikils virði og fyrir það er þér þakkað. Þegar þú, nú í nýrri vist, hefst handa við að gera ykkur garð, langar mig að kveðja þig með lofsöng sveitunga þíns Guðmundar Böðvarssonar bónda og skálds á Kirkjubóli, en í mínum huga er þetta kvæði hans líkt og ort um þig. Það heitir Gróðursetning. Þar er m.a. þessi erindi:

Um allan geiminn ljómar ljósblátt vorið

svo langt sem augað sér,

og lítil brum og litlar gróðurnálar

þau laumast til að heilsa þér,

og vorið, blessað vorið spyr og brosir:

Hvað viltu mér?Og úti í okkar garði er vek að vinna

og vinir bíða þín.

Og vorið spyr: er ást þín góð og göfug,

er gjöful höndin þín við börnin mín,

er hugur þinn í ætt við sól og sumar ?

- Og sólin skín.Og seinna þegar þú ert gamall maður

og þetta vaxið tré,

í skjóli þess þú situr máske og minnist

þess morguns er þú beygðir hér þin hné.

Og blessað vorið yljar ástúð sinni

þín ellivé.

Guð blessi Sveinbjörgu í Runnum.

Einlægur vinur,

Guðlaugur Óskarsson, Kleppjárnsreykjum.