Arnfríður Arnmundsdóttir Drottinn gaf

og Drottinn tók

lofað veri nafn Drottins

(Job 1, 21.) Þessi orð komu sterkt upp í huga okkar þegar við vinkonurnar fréttum af andláti Arnfríðar Ingu Arnmundsdóttur eða Öddu, eins og við ávallt kölluðum hana. Stórt skarð er höggvið í vinahóp okkar og eftir situr tómarúm og söknuður.

Adda barðist hetjulega síðastliðin ár af miklu æðruleysi við illvígan sjúkdóm. Hún var einstök, róleg, yfirveguð og sterk. Hún reyndi af fremsta megni að styrkja fjölskyldu sína og vini. Að hugsa um aðra fremur en sjálfa sig var hennar aðalsmerki. Það sannaðist margoft á hennar lífsleið. Nærtækasta dæmið var þegar eiginmaður hennar, sr. Jónas Gíslason, síðar vígslubiskup, háði sitt stranga dauðastríð síðastliðið haust. Öllum stundum var hún hjá manni sínum, þrátt fyrir veikindi sín. Við dáðumst að styrk hennar, en vissum hvaðan hún fékk hann. Adda hafði ung öðlast sterka trú á Jesú Krist sem vin og persónulegan frelsara sinn. Hann gaf henni kraft til að takast á við hvern dag, Jesús Kristur var leiðtogi í lífi hennar.

Stór hluti lífshlaups Öddu var að sinna preststörfum með eiginmanni sínum, hún gegndi því hlutverki afskaplega vel og stóð sem klettur við hlið hans í öllum hans störfum. Hún opnaði heimili sitt og sinnti þeim ólíku hlutverkum sem upp komu hverju sinni. Um fimm ára skeið bjuggu þau hjón í Danmörku þar sem sr. Jónas var sendiráðsprestur. Þau tóku þá á móti sjúklingum, sem leituðu læknisaðstoðar, fylgdu þeim á sjúkrahúsið og veittu þeim uppörvun og styrk á meðan á sjúkrahúsvist þeirra stóð.

Við vinkonurnar hittumst í MH og áttum það sameiginlegt að vera nú á fullorðinsárum tilbúnar að láta gamlan draum rætast. (Þökk sé áfangakerfi MH.) Að vera komnar aftur í skóla var stórkostlegt og það vantaði ekki áhugann. Ekki var laust við vanmetakennd hjá okkur öllum. Hvernig mundi okkur ganga í klukkutímaprófi? Gátum við mætt kröfum skólans? Smám saman urðum við sigurvissari og jafnvel svolítið hreyknar af árangrinum. Minnimáttarkenndin þokaðist burt. Þetta var sérlega gleðilegt tímabil í lífi okkar. Fljótlega fórum við að hringja hver í aðra og bera saman bækur okkar. Hver og ein lagði sig fram um að gera sitt besta.

Við komum oft heim til Öddu til þess að lesa saman fyrir próf. Hún tók alltaf á móti okkur af miklum hlýleik og myndarskap. Það var mikið talað saman og námsefnið rætt fram og aftur. Töluðum við þá gjarnan um bókmenntir, jafnvel Njála var krufin til mergjar.

Í vor eru liðin 10 ár síðan Adda lauk stúdentsprófi. Tíminn hefur liðið svo fljótt. Eftir stúdentspróf fór Adda í Háskólann og lauk BA prófi í dönsku með sérlega glæsilegum árangri. Hún gerði alltaf miklar kröfur til sjálfrar sín að hverju sem hún gekk. Adda bauð okkur vinkonunum í Skálholt í tilefni útskriftarinnar úr Háskólanum. Við munum alltaf minnast þessa vordags með mikilli ánægju og vorum ekki lítið stoltar af henni að vera búin að ljúka þessum stóra áfanga þrátt fyrir flutninga í Skálholt og annir í sambandi við embætti manns síns.

Af og til höfum við vinkonur hist hver hjá annarri og nú í desember sl. heima hjá Öddu. Ekki er því að neita að veikindin höfðu þá sett sitt mark á hana, en hún var bjartsýn og þarna urðum við vitni að óvenjulegri hetjulund og hugrekki hennar. Við erum þakklátar fyrir þessa sérstöku kvöldstund sem við eigum í minningunni um kjarkmikla konu sem reyndi í lengstu lög að verða ekki öðrum til byrði þrátt fyrir óvenju löng og erfið veikindi þeirra hjóna beggja.

Vináttan er hæsta fullkomnunarstigið innan mannlegs samfélags (Montaigne). Margir telja þá vináttu sem mynduð er á æskuárunum vera þá sterkustu og ekki viljum við gera lítið úr því. Sú vinátta sem við Adda, Ólöf, Guðlaug og Sigrún upplifðum á okkar fullorðinsárum var bæði traust og góð og gaf lífinu gildi.

Þei, þei og ró

Þögn breiðist yfir allt.

Hnigin er sól í sjó.

Sof þú í blíðri ró.

Við höfum vakað nóg.

Værðar þú njóta skalt.

Þei, þei og ró.

Þögn breiðist yfir allt.

(Jóh. Jónsson.) Við þökkum Öddu samfylgdina og biðjum Guð að blessa minningu hennar. Börnum hennar og ástvinum öllum vottum við dýpstu samúð.

Guðlaug Ragnarsdóttir, Ólöf Stefánsdóttir og Sigrún Skúladóttir.