Guðmundur Sigurbjörnsson Elsku pabbi minn.

Mig langar að skrifa nokkur orð til þín hér niður á blað, vegna þess að í dag er afmælisdagur þinn og þú hefðir orðið fimmtugur, ég gat ekki gert það þegar þú lést 7. júlí sl. Þú vast nú búinn að ákveða að halda stóra og skemmtilega fimmtugsafmælisveislu í dag, 22. maí.

Skyndilega veiktist þú þann 28. janúar 1998 af þessum alvarlega sjúkdómi, krabbameini, og lifðir ekki nema í fimm mánuði eftir það. En dagurinn í dag lifir samt í hjörtum okkar fjölskyldunnar, við munum minnast þín með miklum söknuði en góðum minningum. Ég trúði ekki að þú gætir farið svona fljótt frá okkur, þú vars svo yndislegur, hjartahlýr maður og klár. Þú gast nánast veitt manni hvaða hjálp sem var, hvort sem það var lærdómurinn eða eitthvað annað.

Ég hugsa oft með sjálfri mér hvort þú sért virkilega farinn frá okkur. Þetta er svo skrítið, þegar maður kemur heim þá er enginn pabbi til að tala við, eða heyra rödd þína þegar þú komst heim úr vinnunni og kallaðir hæ!

Þú tókst svo oft utan um mig og sagðir mér hvað þér þætti vænt um mig, einu dótturina. Þetta eru ljúfar minningar, ég gæti haldið hér endalaust áfram að skrifa um góðu kostina þína en það var ekki þinn stíll að halda slíku á lofti.

Ég trúi því að við eigum eftir að hittast seinna, pabbi minn.

Guð varðveitir þig og geymir. Ástarþakkir fyrir allt.

Þín dóttir

Klara Guðmundsdóttir.