Guðleif Jónsdóttir Látin er í Borgarnesi heiðurskonan Guðleif Jónsdóttir. Guðleif var gift föðurbróður mínum, Ólafi Þórðarsyni járnsmið í Borgarnesi, sem margir muna eftir en hann lést árið 1963. Heimili þeirra Ólafs og Guðleifar var rómað myndarheimili. Gestkvæmt var oft þegar Laxfoss kom í Borgarnes og margir heimsóttu þau hjón þar, enda ekki í kot vísað þar sem Guðleif stóð fyrir veitingum af miklum myndarbrag. Sem barn dvaldi ég oft á heimili þeirra hjóna yfir sumartímann, þá var einkadóttir þeirra fædd og var hún mikill sólargeisli á heimilinu. Ég vil nú þakka Guðleifu fyrir mig, og þar sem ég eldist eins og annað fólk veit ég að ég á oft eftir að hugsa með ánægju um þann góða og skemmtilega tíma sem ég átti með þessari fjölskyldu á heimili þeirra. Ásu og hennar fjölskyldu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Þóra Guðjónsdóttir.