Lárus Garðar Long Ég vil þakka tengdaföður mínum þessi alltof stuttu en góðu kynni. Ég kynntist unnusta mínum í október 1995 og kem í mína fyrstu heimsókn stuttu eftir það til þeirra Unni og Lalla, þau hjónin tóku mér og syni mínum mjög vel. Enda leið ekki langur tími þar til hann fer að kalla þau ömmu og afa. Lárus var ekki margmáll maður en með húmorinn á réttum stað, traustur og hafði ríkulegan skerf af þolinmæði fyrir lítinn peyja sem stundum fer mikið fyrir. Honum féll aldrei verk úr hendi og átti sér mörg áhugamál, t.d. var hann nýbúinn að kaupa sér bandsög og ætlaði sér að fara að nota tímann til að smíða enda var hann mjög laghentur, verst er að hann hafi ekki getað notið þess lengur. Um hver jól kom hann og færði okkur fallegar jólaskreytingar. Eins voru Unnur og Lalli einstaklega dugleg í garðinum sínum enda er hann einn sá fallegasti í Eyjum.

Lalli sýndi mikinn dugnað í veikindum sínum og Unnur stóð við hlið hans eins og klettur allan tímann.

Það hefur stórt skarð verið höggið í þessa yndislegu fjölskyldu. Elsku Unnur, missir þinn er mestur. Vil ég biðja guð að styrkja þig og eins börn, tengdabörn og barnabörn, í þessari miklu sorg. Eftir standa ljúfar minningar um einstaklega góðan mann.

Jóhanna Lilja Eiríksdóttir.