Guðrún Jóna Ipsen Hið snögga og óvænta fráfall Guðrúnar Jónu er að sjálfsögðu mikið áfall fyrir Víði, manninn hennar og börn þeirra og þeirra fjölskyldur svo og ættingja og vini. Guðrún hverfur hins vegar frá góðu og glæsilegu heimili og fjölmargir munu geyma góðar minningar um þessa yndislegu konu sem var hvers manns hugljúfi.

Þú komst til að kveðja í gær

þú kvaddir og allt varð svo hljótt

á glugganum frostrósin grær

ég gat ekki sofið í nótt

hvert andvarp frá einmana sál

hvert orð sem var myndað án hljóms

nú greinist sem gaddfreðið mál

í gervi hins lífvana blóms.Er stormgnýrinn brýst inn í bæ

með brimhljóð frá klettóttri strönd

en reiðum og rjúkandi sæ

hann réttir oft ögrandi hönd.

Ég krýp hér og bæn mína bið

þá bæn sem í hjartanu er skráð

ó þyrmd'onum gefð'onum grið

hver gæti mér orð þessi láð.

(Freymóður Jóhannsson.) Við sendum Víði, börnum hennar og fjölskyldum þeirra og ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Elsku Guðrún, við þökkum þér fyrir áralanga vináttu og traustið sem þú sýndir okkur í þínum erfiðu veikindum, þú átt þinn stað í hjarta okkar og við munum aldrei gleyma þér.

Kveðja

Bergljót og Heiðar.