Garðar Lárus Long Elskulegur tengdafaðir minn hefur nú hvatt þetta jarðlíf, eftir erfið veikindi frá síðastliðnu hausti. Manni finnst það óraunverulegt því þú ert svo ljóslifandi í huga manns og minningarbrotin eru mörg. Kornung kom ég inn í fjölskylduna þegar við Jóhannes kynntumst. Fann ég þá mjög sterkt hvað ég var innilega velkomin og leið vel í návist ykkar Unnar. Samband ykkar Unnar hefur alltaf verið einstakt í mínum augum og varð mér fljótlega ljós hin gagnkvæma ást og virðing sem var á milli ykkar. Augljóst var að þið voruð einstaklega samtaka í lífsbaráttunni, saman endurbyggðuð þið ykkar fallega heimili eftir að það brann til grunna í eldgosinu 1973 og kom ekki annað til greina en að halda áfram lífið í Eyjum. Gaman var að sjá og fylgjast með hve fallegur garðurinn ykkar er ávallt og hvað þið nostruðuð við hann eins og lítið ungviði. Ekki var hægt að hugsa sér betri tengdaföður en þig, svo mikið góðmenni sem þú varst. Alltaf varstu tilbúinn að aðstoða okkur Jóhannes ef á þurfti að halda svo sem að mála heila íbúð í hvelli og þar fram eftir götum. Hugulsamur varstu alltaf og ófáa bíltúrana bauðstu afabarni þínu og nafna Lárusi í, sem hann minnist oft á, þegar afi fór með hann í bíltúr á bryggjurnar og um alla eyju. Það fannst honum reglulega gaman. Mér fannst þú alltaf sérstakur jólamaður og naut maður þess óspart þegar þú komst til okkar færandi hendi með híasintuskreytingar og fleira sem þú varst alltaf að nostra við fyrir jólin. Ég vil að leiðarlokum, elsku Lalli, þakka þér fyrir að hafa eignast svona góðan tengdaföður, sem varst áhugasamur um velferð okkar og elskaðir okkur eins og við erum og lést okkur finna það í stóru og smáu. Lifi minningin um þig, elsku Lalli.

Ásta Bína.