Lárus Garðar Long Jæja afi minn, þá ert þú farinn, farinn á stað þar sem ég veit að þér mun líða vel. Þú barðist hetjulega við erfiðan sjúkdóm sem bar þig ofurliði. Sorgin hjá mér er mikil en ég næ að milda hana með öllum góðu minningunum sem ég hef um þig. Það er margt sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa um þær stundir sem við áttum saman nafnarnir. Það var oft sem þú tókst mig í bíltúr um eyjuna og sýndir mér bátana og sagðir mér frá fjöllunum í kring, þetta var það skemmtilegasta sem ég gerði að fara í bíltúr með afa, oftar en ekki endaði bíltúrinn í blómabúðinni þar sem þú vildir kaupa falleg blóm til þess að færa ömmu og ég fékk auðvitað að velja mér einn bíl eins og venjulega. Þjóðhátíðin var alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá mér og alltaf byrjaði hún þannig að þú tókst mig í dótabúðina í dalnum til að velja mér dót, aldrei gleymdir þú því. Þegar ég var sjö ára fluttist ég svo frá Vestmannaeyjum, en heimsótti ykkur reglulega, alltaf hlakkaði ég mikið til þess að koma í heimsókn á Túngötuna. Mjög oft kom ég til Eyja til þess að keppa í fótbolta og auðvitað varst þú mættur að horfa á mig, og oft hést þú á mig einhverjum aur ef ég rambaði á að skora mark, það fannst mér alltaf mjög spennandi. Minningarnar eru ótal margar og alltof margar til þess að segja frá þeim öllum hér. Afi minn, þú hefur alltaf staðið þétt með okkur fjölskyldunni í einu og öllu, hagur fjölskyldunnar var alltaf ofar öllu hjá þér. Missirinn er mikill en minningarnar munu aldrei hverfa úr huga mér. Ég veit að þér líður vel núna og ég veit að þú heldur áfram að fylgjast með mér og ég með þér. Elsku amma, megi Guð fylgja þér eftir þennan mikla missi, þið voruð eitt, amma og afi eins og alla dreymdi um að eiga.

Lárus Long.