Það vilja allir hér þennan veg KRISTINN Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, sagði í samtali við Morgunblaðið, að allar sveitarstjórnirnar og allir íbúar á norðanverðu Snæfellsnesi vildu fá umræddan veg yfir Vatnaheiði og sjálfur ætti hann erfitt með að skilja hvers vegna það færðist svo í vöxt að lífríkið væri meira metið en mannskepnan,
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 990530 \: SLÖGG:: sum gðum málum á sv STOFNANDI:: GUDM \: \: Það vilja allir

hér þennan veg

KRISTINN Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, sagði í samtali við Morgunblaðið, að allar sveitarstjórnirnar og allir íbúar á norðanverðu Snæfellsnesi vildu fá umræddan veg yfir Vatnaheiði og sjálfur ætti hann erfitt með að skilja hvers vegna það færðist svo í vöxt að lífríkið væri meira metið en mannskepnan, en honum virtist umræðan í þessu máli og athugasemdir Náttúruverndar ríkisins bera keim af því.

"Við sem hér búum vitum að á Kerlingarskarði er mjög erfiður kafli, þar getur vindhæð orðið mikil og það líður ekki sá vetur að í fréttum megi ekki lesa um hrakninga fólks á þessum slóðum. Með nýjum vegi yfir Vatnaheiði fáum við veg sem liggur mun neðar, er snjóléttari og mikil samgöngubót. Við viljum að sjálfsögðu taka tillit til umhverfisþátta en í þessu tilviki eiga þarfir mannfólksins að ráða og mér þykir með ólíkindum hvað gert er lítið úr öryggisþáttum við þessa vegalagningu í athugasemdum Náttúruverndar ríkisins. Það liggur við að það sé móðgun við okkur sem búum hér norðan á Snæfellsnesi. Þá er ekki um að ræða að þarna sé verið að eyðileggja eitt eða neitt, þvert á móti batnar með vegalagningunni aðgengi að nýju útivistarsvæði," sagði Kristinn.

Aðspurður um aðra valkosti, t.d. varaáætlun Vegagerðarinnar að byggja upp gamla veginn á Kerlingarskarði, sagði Kristinn: "Ef peningar væru eina sjónarmiðið í þessu máli þá er dæmið einfalt. Það er enginn sparnaður fólginn í því að gera upp veginn á Kerlingarskarði. Vegurinn þar er ónýtur. Og það er ekki eins og þetta sé það eina sem í gangi er. Samgöngumálin eru í brennidepli hérna og allir eru samstiga. Þannig á t.d. að fara í framkvæmdir á Fróðárheiði í haust. Menn verða að geta valið um eftir veðurfari hverju sinni."

Aðrir á sama máli

Fleiri eru á sama máli, í umsögn í frummatsskýrslu hvetur t.d. Ólafur Hilmar Sverrisson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, til vegagerðarinnar og telur slæmar samgöngur milli norður- og suðurstrandar hafa staðið ýmsum góðum málum á svæðunum fyrir þrifum, m.a. hefðu aðilar í ferðaþjónustu orðið af viðskiptum og íbúar á sunnanverðu svæðinu væru flæmdir suður á bóginn til að leita eftir þjónustu af ýmsum toga.

Brynjar Hildibrandsson, oddviti Helgafellssveitar, Björg Ágústsdóttir fyrir hönd hreppsnefndar Eyrarsveitar og fulltrúar landeigenda Selvalla taka í sama streng á sömu forsendum og tíundaðar eru.