ÞEIR Kristinn Magnússon og Fylkir Þ. Sævarsson gerðu sér lítið fyrir á sunnudaginn og syntu úr Sundahöfn yfir í Viðey og aftur til baka. Að sögn Kristins er það tæplega tveggja kílómetra leið og voru þeir félagar 57 mínútur á leiðinni. "Markmiðið var að klára sundið en ekki að ná góðum tíma," bendir Kristinn á.
Fóru létt með Viðeyjarsund

ÞEIR Kristinn Magnússon og Fylkir Þ. Sævarsson gerðu sér lítið fyrir á sunnudaginn og syntu úr Sundahöfn yfir í Viðey og aftur til baka. Að sögn Kristins er það tæplega tveggja kílómetra leið og voru þeir félagar 57 mínútur á leiðinni. "Markmiðið var að klára sundið en ekki að ná góðum tíma," bendir Kristinn á. Hefðbundið Viðeyjarsund er úr Viðey í gömlu höfnina en leiðin sem þeir Kristinn og Fylkir fóru var mun styttri. Þá leið sem þeir fóru hefur samkvæmt heimildum engin áður synt fram og til baka.

Sundmennirnir áttu stutta viðkomu í Viðey þar sem þeir skráðu nafn sitt í gestabók sem staðarhaldarinn Þórir Stefensen kom með niður í fjöru. Þar fengu þeir einnig að gjöf bók um Viðeyjarprentið, til minningar um sundið.

Kristinn og Fylkir eru gamlir sundkappar og kynntust reyndar við æfingar hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar tólf ára gamlir. Í sumar hafa þeir synt í Nauthólsvíkinni og ræða gjarnan saman á meðan sundinu stendur. Hugmyndin að Viðeyjarsundinu kom upp í einum slíkum samræðum. "Við höfum alltaf kjaftað saman á sundi," segir Kristinn, "líka þegar við vorum pollar,"

Þeir segja sundið ekki hafa tekið mikið á og nefna að mikill stuðningur hafi verið í hvor öðrum. "Ég hefði líklega aldrei gert þetta einn," segir Kristinn en hann er reyndar vanur sjósundmaður.

Það voru margir á bryggjunni að fylgjast með þessu þrekvirki þeirra Kristinns og Fylkis. Fjölskyldur, vinir og einnig utanaðkomandi fólk. "Margir trúðu því ekki að við myndum synda fyrr en þeir sáu umfjöllun þess efnis í Morgunblaðinu." segir Fylkir.

Sjórinn var tíu gráðu heitur en þeir félagar sögðust ekki hafa fundið mikið fyrir kuldanum. Þeir notuðu enga feiti til að verja sig en það kom víst ekki að sök. Á sundinu fylgdu þeim á gúmmíbáti þrír meðlimir Björgunarsveitarinnar Ingólfur og á öðrum báti voru nokkrir vinir þeirra sem langaði að fylgjast náið með.

Þeir Kristinn og Fylkir segjast ekki vera búnir að ákveða hvort þeir endurtaki sjósund af þessu í tagi í bráð, en báðir eru á því að þetta hafi verið mjög skemmtilegt reynsla.

Morgunblaðið/Halldór Kolbeins ÞEIR Kristinn og Fylkir rabba oftast saman þegar þeir synda og enginn undantekning var á þegar þeir syndu úr Sundahöfn yfir í Viðey og til baka.