Fjölmörg atriði þarf að hafa í huga, að mati Bjarna Ólafssonar, til þess að fyrirbyggja skemmdir ef sumarbústaður stendur mánuðum saman án eftirlits yfir vetrarmánuðina.
Smiðjan

Frágangur sumarhúsa fyrir veturinn

Fjölmörg atriði þarf að hafa í huga, að mati Bjarna Ólafssonar , til þess að fyrirbyggja skemmdir ef sumarbústaður stendur mánuðum saman án eftirlits yfir vetrarmánuðina.

Hvernig hyggst þú ganga frá sumarbústað þínum undir veturinn? Okkur er öllum ljóst að hafa þarf í huga fjölmörg atriði til þess að fyrirbyggja skemmdir ef sumarbústaður stendur mánuðum saman án eftirlits yfir vetrarmánuðina.

Sumarbústaðir eru margir þannig í sveit settir að músagangur er mikill í umhverfinu og mýs hafa ótrulega hæfileika til þess að komast inn í hús að vetri til. Þær þurfa ekki stórt gat eða holu til að geta smogið inn og sé rifan of þröng eru þær ekki í neinum vandræðum með að víkka smuguna.

Fleiri gestir geta reynt inngöngu! Væri kannski ráðlegt að skilja vel og þrifalega við húsið að innan. Þvo gólf og umfram allt að skilja ekki neitt eftir óuppþvegið í eldhúsinu. Sumum hættir til að fá sér öðru hvoru kaffibolla á meðan verið er að ganga frá í húsinu, síðan gleymist oft að þvo bollana. Ég spyr: Væri ekki óviðkunnanlegt ef óboðinn maður kemst inn í húsið að hann rækist á óhrein mataráhöld?

Innanhússfrágangur

Huga þarf að vatni, til dæmis í salernisskálum, vatnslásum, handlaugum, eldhúsvöskum, hreinlætistækjum í baðherbergjum og heitavatnsgeymum og gæta verður þess að ekki sitji vatn í rörum. Ef ekki reynist unnt að tæma vatn úr þessum stöðum er helsta ráðið að setja frostlög á þá.

Það er afar áríðandi að gæta vel að vatninu. Frosið vatn veldur dýrum skemmdum og þegar aftur hlýnar kunna að verða vatnsskemmdir á gólfum og búnaði. Allt getur bilað og brugðist, hvort sem um er að ræða hitaveituvatn úr jörð eða rafstraum sem notaður er til hitunar.

Fyrir vetrarmánuðina er rétt að athuga hurðir og glugga. Krækjur og lokur þurfa að vera öruggar og ef einhvers staðar er rúða sem er farin að losna þarf að kítta upp eða festa þess háttar bilun af því að ef rúða fýkur burtu í vetrarstormi getur af því hlotist allmikið tjón.

Einnig þarf að gera við rifur eða göt þar sem mýs geta smogið í gegn. Slík göt er líklega best að þétta með steypu eða málmplötum

Frágangur utanhúss

Sumarhúsi getur líklega stafað mest hætta af mannavöldum. Það er því miður all oft brotist inn í sumarhús og húsin skemmd, stöku sinnum jafnvel kveikt í þeim.

Þegar gengið er frá húsi að utan fyrir vetrarmánuðina þarf auðvitað að gefa gætur að því hvað getur fokið í vetrarstormum. Þakið þarfnast sérstakrar athygli, t.d. hvort negling á þakplötum er farin að gefa sig. Algengt er að naglar lyftist upp og losni. Í sumarhitum verða allmiklar hitabreytingar í þakplötunum svo að naglar og skrúfur losna. Síðan þegar sterkir vindar blása geta þeir rifið þakplöturnar upp og feykt þeim burtu. Þakplata byrjar að lyftast á horni eða á jaðri og með sífelldum vindhviðum endar platan með því að fjúka brott.

Annað þarf að athuga við frágang að hausti en það er að skilja ekkert laust dót eftir úti heldur festa allt lauslegt sem annars gæti fokið í gluggana eða skemmt húsið á annan hátt.

Vörn fyrir innbrotum

Innbrotum er erfitt að verjast svo tryggt sé, en eins og margir vita er hætta á innbrotum misjöfn eftir því hvar húsið stendur. Gluggahlerar geta verið þarfaþing. Þeir verja gluggana fyrir illviðrum og torvelda mönnum inngöngu sem reyna að brjótast inn. Hið sama má segja um ytri hurð á útidyrum. Það er lítið verk að setja saman flekahurð úr borðum sem hengd er á lamir fyrir utan aðalinngang. Slík hurð skýlir betri hurðinni fyrir regni, hríð og vindum. Ég vek þó athygli á að sama gildir um garðhurð eða hurð út á sólpallinn. Þar er ekki síður þörf fyrir ytri hlífðarhurð með góðum frágangi.

Það er einfalt að smíða gluggahlera og hlífðarhurðir úr nótuðum panilborðum með tvo oka á hvern hlera. Fallegt er að hafa borðamunstrið skásett. Tveir hlerar mynda þá saman svonefnt síldarbeinamunstur.

Frágangur hleranna, hvort heldur á dyr eða glugga, þarf að vera sterkur, t.d. slagbrandur úr járni þvert yfir hlerana og boltaður mað skrúfbolta inn í gegnum vegg eða gluggapóst ef svo stendur á.

Aðrir óboðnir gestir gera sig heimakomna í sumarhúsum, það eru mýsnar sem stundum reynist örðugt að loka úti. Fínriðið vírnet með þriggja til fjögurra mm möskvum er notað undir borðaklæðningu við fótstykki tréhúsa til þess að loka fyrir músagang inn undir klæðninguna.

Mismunandi undirstöður

Undirstöður sumarhúsa eru mjög mismunandi, sum standa í allmiklum halla, þannig að efst er húsið jafnvel grafið dálítið niður í jarðveginn en neðst getur verið næstum því manngengt undir gólfið. Það kemur jafnvel stundum fyrir að sumarhús lyftast og færast til á undirstöðunum. Þess vegna er þörf á að festa húsin vel niður á undirstöðurnar og einnig að loka opinu, sem er undir gólfinu, með klæðningu.

Vindhviður sem lenda á hlíðum dala eða hæða margfaldast oft á leið sinni og því er þörf á að loka svona holrúmi sem myndast undir gólfum í jarðhalla.

Bústaður sem stendur á jafnlendi er í nokkurri hættu af snjósköflum og raka þegar hlýnar í veðri. Það er því góður siður að líta eftir aðstæðum öðru hvoru að vetrinum.