Hvað eru mörg
s í því?
Grjótaþorp ÞAÐ er til saga um lögregluþjón sem fann lík í Fischersundi en dró það niður í Aðalstræti til að forðast vandræði
við skýrslugerð; hann kunni ekki að stafsetja Fischersund. Þessum laganna verði er nokkur vorkunn því við þessa fáförnu götu í hjarta borgarinnar er að finna götuskilti með þrenns konar stafsetningu á götunafninu.
Við Garðastrætishornið er skilti með götunafninu á húsvegg. Þar stendur Fischerssund, með tveimur s-um.
Í götunni sjálfri eru tvö götuskilti frá Reykjavíkurborg og þar stendur Fischersund, með einu s-i. Sama stafsetning er við Aðalstrætishornið, á gafli húss nr. 4 við Aðalstræti.
En nýlega er búið að setja upp eitt skiltið enn; á gafli Geysishússins. Þar er að finna nýstárlega útgáfu af götunafninu: Fichersund. Þarna er gatan ekki kennd við Fischer heldur Ficher.
Það skilti var sett upp á vegum Árbæjarsafns en Morgunblaðið náði ekki tali af borgarminjaverði eða umsjónarmanni húsadeildar safnsins til að leita skýringa á þessum nýja rithætti.
Fischersund, svo notaður sé ritháttur Reykjavíkurborgar og símaskrárinnar, er að mörgu leyti óvenjuleg gata og endurspeglar ólíkar hliðar atvinnulífsins. Þar standa hlið við hlið Útfararstofa Oswalds og nektardansstaðurinn Club Clinton. Þessi ólíku fyrirtæki eru þó bæði í húsum, sem talin eru bakhús frá Aðalstræti.
Aðeins eru tvö hús við Fischersund. Bæði heita Fischersund 3. Í öðru húsinu býr fjölskylda en í hinu er Sögufélagið með starfsemi sína.
Ragnheiður Þorláksdóttir, framkvæmdastjóri Sögufélagsins, segir að félagið noti alltaf ritháttinn með einu s-i til að kynna sig og starfsemi sína. Ragnheiður benti blaðamanni á sérstöðu fyrirtækjarekstrar og húsnúmera við götuna en veit sagnfræðingurinn skýringu á hinum nýjasta rithætti götunafnsins, þess sem Árbæjarsafn ber ábyrgð á? "Ég held að þetta sé bara ritvilla," segir hún.
Morgunblaðið/Golli Þessi stafsetning er á húsvegg á Aðalstrætishorninu og líka á götuskiltum frá borginni.
Götunafnið er skrifað með tveimur s-um á húsi á Garðastrætishorninu.
Þetta skilti er á gafli Geysishússins. Nú heitir gatan ekki eftir Fischer heldur Ficher og hefur hlotið aukanafnið Götuhúsastígur.