Bindiskylda ráðstöfunarfjár innlánsstofnana í Seðlabankanum: Einhliða skattlagning og óréttlætanleg ­ segir Tryggvi Pálsson bankastjóri Íslandsbanka.

Bindiskylda ráðstöfunarfjár innlánsstofnana í Seðlabankanum: Einhliða skattlagning og óréttlætanleg ­ segir Tryggvi Pálsson bankastjóri Íslandsbanka.

TRYGGVI Pálsson bankastjóri Íslandsbanka jafnar bindiskyldu á ráðstöfunarfé innlánsstofnana í Seðlabankanum á 2% vöxtum viðskattlagningu þar sem vextirnir eru lægri en á útlánum bankanna. Hann segir, að þeim mun lægri vexti sem Seðlabankinn greiðir af bindingunni, því hærri þurfa almennir útlánsvextir að vera, eða innlánsvextir lægri. Jóhannes Nordal Seðlabankastjóri bendir á að víðast hvarþarsem svipuð binding er í seðlabönkum annarra ríkja séu engir vextir greiddir af bindiskyldunni.

Bindiskyldan er ákveðið hlutfall af ráðstöfunarfé bankanna. Bundna féð er skylt að geyma í Seðlabankanum. Bindiskyldan var lækkuð um síðustu mánaðamót, sem þýðir að lausafé bankanna eykst, en um leið var breytt reglum um lausafjárhlutfall bankanna, sem þýðir að hækkað hlutfall þess verður ekki hægt að lána út. Bankarnir fá þó hærri ávöxtun þess fjár heldur en af bindiskyl dunni.Í frétt Seðlabankans sagði að það væri gert til að hamla gegn peningaþenslu sem leiddi af auknum útlánum.

Morgunblaðið bar undir Jóhannes Nordal þau ummæli Ásmundar Stefánssonar fráfarandi formanns bankaráðs Íslandsbanka að lágir vextir á bindiskyldu skertu samkeppnishæfni íslenskra banka við erlenda. "Í fyrsta lagi eru bankarnir auðvitað ekki í samkeppni við útlönd í dag með þessum beinum hætti," sagði Jóhannes. "En, þar að auki, þar sem binding er annars staðar af þessu tagi, eru engir vextir greiddir af henni, svo að ég efast um að þetta skekki myndina verulega. Hitt er annað mál að verði bankamarkaður inn opnaður þá verður vafalaust umað ræða ýmiss konar samræmingu milli aðstöðu bankastofnana hér og annars staðar. Nú er búið að lækka bindinguna niður í 7% og ég held að það sé nú komið þannig að mörg lönd séu með svipaða bindingu án þess að nokkrir vextir séu greiddir. Hér eru greiddir 2% vextir ofan á verðtryggingu."

Tryggvi Pálsson gagnrýnir að bindiskyldan skuli vera látin hafa áhrif á afkomu banka og sparisjóða. "Bindi- og lausafjárskylda eiga rétt á sér sem hagstjórnartæki í peningamálum, en fjármálafyrirtæki verða að búa við sambærileg starfsskilyrði og einhliða skattlagning á banka og sparisjóði er ekki réttlætanleg. Þær aðgerðir sem Seðlabankinn hefur nú framkvæmd eru skref á réttri braut og er vonandi að áfram verði haldið," sagði Tryggvi.

Hann segir breytinguna um síðustu mánaðamót ekki bæta stöðuna umtalsvert. "Þetta þýðir þó að það fé sem við getum haft laust, sem eru innstæður í bönkum, ríkisvíxlar, spariskírteini upp að vissu marki og millibankalán, gefa þó meiri ávöxtun af sér heldur en þessi 2% í Seðlabankanum. Að því leyti er þetta hagstæðara. Þetta breytir þó ekki mjög miklu, okkur reiknast til að þetta væru nokkrir tugir milljóna sem þetta breytti fyrir okkur."