HALLDÓR Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í setningarræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var á Hótel Loftleiðum í gær að til greina kæmi að einkavæða Landssímann en halda eftir flutningskerfi símans í ríkiseigu til að tryggja jafnan aðgang landsmanna að þjónustunni og jafnræði í gjaldskrá. Ítrekaði Halldór jafnframt andstöðu flokksins við sölu Ríkisútvarpsins en sagði að losa þyrfti stofnunina undan flokkspólitísku valdi.

Halldór sagði í ræðu sinni að álver á Reyðarfirði væri eitt mikilvægasta byggðamál sem komið hefði upp í áratugi. Ítrekaði hann þá skoðun sína að nauðsynlegt væri að málefni Fljótsdalsvirkjunar og álvers á Reyðarfirði kæmu til umfjöllunar Alþingis að nýju, svo eytt yrði þeirri óvissu sem verið hefur um fylgi við málið þar. "Takist okkur að ná samningum um það er það að mínu mati raunhæfasta aðgerð sem völ er á til að hamla gegn þeirri öfugþróun sem orðið hefur í búsetu á svæðinu," sagði Halldór.

"Mér er vitanlega ljóst að þetta mál er eitthvert erfiðasta mál sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið frammi fyrir um langa hríð og jafnframt er ljóst að skoðanir eru skiptar í landinu öllu," bætti hann við.

Gagnrýni Vinstri græna harðlega

Halldór gagnrýndi stjórnarandstöðuflokkana í ræðu sinni og sagði þá hafa auglýst sig sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn fyrir síðustu alþingiskosningar en síðan einbeitt sér að því að ráðast gegn Framsóknarflokknum "með heldur ógeðfelldum aðferðum".

Sagði Halldór að þeir flokkar, sem gerðu Framsóknarflokkinn að höfuðandstæðingi í kosningabaráttunni hefðu farið að efast um þá stefnu er þeim varð ljóst að Framsóknarflokkurinn sótti í sig við veðrið á kosningabaráttuna leið. "Nær hefði verið að eyða nokkru púðri á Sjálfstæðisflokkinn, sem sigldi lygnan sjó í gegnum kosningabaráttuna," sagði Halldór.

Halldóri varð einkum tíðrætt um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og sagði að í raun væri sá flokkur aðeins rauður, en ekki grænn. "Grænt viðhorf og umhverfishyggja felast ekki í því að lýsa yfir fyrirfram andstöðu við nýtingu orkulindanna okkar hvað svo sem líður umhverfismati og niðurstöðum vísindamanna. Þeir sem það gera, opinbera þann tvískinnung sem birtist í kalli þeirra eftir svokölluðu lögformlegu umhverfismati. Jafnvel þótt slíkar framkvæmdir séu fyrst og fremst hugsaðar til að efla undirstöður velferðar og atvinnu í einstökum byggðarlögum og á landinu öllu eru þeir á móti," sagði Halldór og vísaði til Vinstri grænna.

Hagnaði af sölu fjármálafyrirtækja varið til byggðamála

Halldór gerði utanríkismál að umtalsefni í ræðu sinni og tók fram að hann væri ekki að boða inngöngu Íslands í Evrópusambandið þótt hann hefði að undanförnu lagt áherslu á að Íslendingar yrðu að hafa vakandi auga með samrunaferlinu í Evrópu.

Fram kom einnig í máli Halldórs að ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja hluta af hagnaði af sölu fjármálastofnana til að styrkja stöðu landsbyggðarinnar og sporna gegn flutningi fólks til höfuðborgarsvæðisins. Sagði hann að á næstu misserum þyrfti ríkisstjórnin að taka afstöðu til þess hvernig hluta þessa hagnaðar yrði best varið til byggðamála.

Sagðist Halldór jafnframt telja að þær aðstæður kynnu að vera að skapast þar sem fyrirtæki í einkaeign gæti veitt Landssímanum verðuga og hraustlega samkeppni og því kynni að koma að því að skynsamlegt væri að selja fyrirtækið. Mikilvægt væri hins vegar að tryggja jafnan aðgang landsmanna að fjarskiptaþjónustu og að sama gjaldskrá gilti alls staðar á landinu.

"Við skulum hins vegar hafa í huga að þrátt fyrir ríkisrekstur Landssímans hefur þetta ekki tekist til þessa og það er ekkert sem segir að aðeins með ríkisrekstri geti það tekist. Það kæmi að mínu mati alveg til greina að skilja flutningskerfi símans frá annarri starfsemi hans og halda því í ríkiseign, í því skyni að tryggja jafnan aðgang landsmanna að þjónustunni og jafnræði í gjaldskrá," sagði Halldór.

Gera þurfi breytingar á stjórnskipulagi RÚV

Hann tók sérstaklega fram að Ríkisútvarpið væri eitt þeirra ríkisfyrirtækja sem framsóknarmenn hefðu talið að kæmi ekki til greina að selja. Þeir hefðu litið svo á að það væri til heilla fyrir íslenskan almenning að standa vörð um Ríkisútvarpið svo það gæti með reisn sinnt þeim skyldum sem því hefðu verið lagðar á herðar.

Á hinn bóginn þyrfti að gera ákveðnar grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi stofnunarinnar og losa hana undan því flokkspólitíska stjórnvaldi sem því hefði fram til þessa verið stýrt af. Í öðru lagi yrði að tryggja Ríkisútvarpinu þær tekjur að það geti rækt lögbundnar skyldur sínar með sóma.

"Ríkisútvarpið verður að njóta trausts," sagði Halldór. "Það traust fæst ekki með auglýsingum í fjölmiðlum, heldur vönduðum vinnubrögðum stofnunarinnar sjálfrar."

Í ræðu sinni vék Halldór einnig að loforði Framsóknarmanna um eins milljarðs króna framlag í átak gegn fíkniefnum og sagði að gefin loforð yrðu efnd.