TVISVAR í viku er siglt út í Vigur í Ísafjarðardjúpi með póst, kost, 600 lítra mjólkurtank og skólabörn, sem þurfa að sækja nám upp á fasta landið. Bjarni Salvarsson, 11 ára nemandi í Súðavíkurskóla, kemur alltaf heim í Vigur með bátnum um helgar.

TVISVAR í viku er siglt út í Vigur í Ísafjarðardjúpi með póst, kost, 600 lítra mjólkurtank og skólabörn, sem þurfa að sækja nám upp á fasta landið. Bjarni Salvarsson, 11 ára nemandi í Súðavíkurskóla, kemur alltaf heim í Vigur með bátnum um helgar. Eldri bræður hans, þeir Magnús og Snorri, sem eru 16 og 17 ára og stunda nám við Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði, koma ekki alltaf heim með litla bróður.

Í gærmorgun þegar Kiddý ÍS-97, lagði af stað út í Vigur frá Ísafirði, með póstinn, kostinn og mjólkurtankinn, var veður eins og best verður á kosið á þessum árstíma, kalt, stilla og sjórinn spegilsléttur. Siglt var út fyrir Arnarnesið og meðfram Súðavíkurhlíðinni, einu mesta snjóflóðasvæði landsins. Í vikunni féll á annan tug snjóflóða eða spýja á veginn undir hlíðinni.

"Mjög gott að eiga heima í Vigur"

Fyrirtækið Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar ehf., sem er í eigu hjónanna Hafsteins Ingólfssonar og Guðrúnar Kristjönu Kristjánsdóttur, hefur séð um flutningana meira og minna síðustu þrjú ár, en Fagranesið sá áður um þá, en hefur nú verið kyrrsett og framtíð þess því óráðin.

Á hafnarbakkanum í Súðavík beið Bjarni, rjóður í kinnum, í kuldagalla og með húfu, tilbúinn að fara heim, en bræður hans höfðu orðið eftir á Ísafirði.

Haldið var rakleiðis út í Vigur frá Súðavík sem er í eigu bræðranna Björns og Salvars Baldurssona. Bræðurnir, sem báðir eru uppaldir í eyjunni, búa þar ásamt fjölskyldum sínum og móður, Sigríði Salvarsdóttur.

Björn og eiginkona hans, Ingunn Sturludóttir, eiga einn son, Baldur, sem er 15 mánaða. Salvar og konan hans Hugrún Magnúsdóttir eiga fjögur börn, Bjarna, Magnús, Snorra og Sigríði, sem er þriggja ára.

Sauðkindur fluttar með 200 ára gömlum áttæringi

Í Vigur eru 100 sauðkindur og 9 kýr, en vegna þess hversu lítið beitiland er á eyjunni eru þær fluttar með bát yfir á beitiland við Folafót á sumrin. Björn sagði að elsti bátur landsins væri notaður í flutninganna, en það er áttæringur, sem smíðaður var í kringum aldamótin 1800.

Auk þess að vera með blandað bú, hafa ábúendur Vigur byggt upp þjónustu fyrir ferðamenn á eyjunni, en í sumar heimsóttu yfir 2.000 ferðamenn eyjuna. Þá stunda þeir einnig dúntekju og lundaveiðar, en talið er að um 80.000 lundar séu í eyjunni.

Bjarni sagðist hafa í nógu að snúast á sumrin því þá hjálpaði hann til við bústörfin.

"Ég sé um að reka kýrnar og ég er líka afgreiðslumaður í pósthúsinu," sagði Bjarni, sem sagðist alveg geta hugsað sér að eiga heima í Vigur þegar hann yrði eldri.

Aðspurður hvað hann hygðist gera í framtíðinni, svaraði hann af mikilli ákveðni: "Ég ætla að verða endurskoðandi." Faðir Bjarna, Salvar Baldursson sagði að Bjarni hefði alltaf ætlað að verða bakari, en nú væri hann líklega búinn að komast að því að það væri ekkert sérstaklega hagkvæmt.