DÓMSMÁLARÁÐHERRA, Sólveig Pétursdóttir, veitti í gær viðtöku fyrsta eintaki Lagasafns 1999, en þar má finna þau lög sem í gildi voru 1. október sl. Þetta er í 11.

DÓMSMÁLARÁÐHERRA, Sólveig Pétursdóttir, veitti í gær viðtöku fyrsta eintaki Lagasafns 1999, en þar má finna þau lög sem í gildi voru 1. október sl.

Þetta er í 11. skipti á öldinni sem lagasafn er gefið út, en lagasafnið var síðast gefið út í bók í janúar 1996 og er núverandi útgáfa um 25% ódýrari en sú síðasta. Ritstjóri Lagasafnsins er Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari.

Lagasafnið er uppfært á heimasíðu Alþingis um leið og það kemur út í prentuðu máli og sagði dómsmálaráðherra mikið af lagagögnum nú vera að finna á Netinu. Enda hefði meirihluti þjóðarinnar aðgang að upplýsingaveitu netsins.

Þá hefur dómsmálaráðherra skipað tvær nefndir í kjölfar umfjöllunar um aðgengi að lagagögnum á netinu, en lagt hefur verið til að sett verði upp heildstæð yfirlitssíða á netinu yfir öll lagagögn sem þar er að finna, þ.e. lög, reglugerðir, dóma og hvers konar verklagsreglur sem settar eru í stjórnsýslunni. Yfirlitssíðuna má síðan tengja síðum og vefsetrum sem lagagögn geyma.

Að sögn dómsmálaráðherra verður hlutverk annarrar nefndarinnar að fjalla um miðlun lagagagna á Netinu og uppsetningu yfirlitssíðunnar, á meðan hinni nefndinni verði falið að fjalla um uppsetningu á reglugerðarsafni á Netinu, þ.e. öllum stjórnvaldsfyrirmælum, sem birt eru í B-deild stjórnartíðinda.