ÁTJÁN ára piltur hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir líkamsárás, þjófnað, skjalafals og eignaspjöll.

ÁTJÁN ára piltur hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir líkamsárás, þjófnað, skjalafals og eignaspjöll. Þá er honum gert að greiða vegna þessara mála rúmlega 850 þúsund krónur auk 90 þúsund króna í málsvarnarlaun.

Pilturinn var ákærður fyrir að hafa sparkað í mann við Félagsheimilið Tjarnarborg í október á síðasta ári með þeim afleiðingum að þrjú rif í brjóstkassa hans brotnuðu. Þá var hann ákærður fyrir að hafa brotist inn í myndbandaleigu í Ólafsfirði síðasta haust og stolið m.a. tóbaki og sælgæti og fyrir skjalafals með því að framvísa fölsuðu ökuskírteini í þeim tilgangi að komast inn á skemmtistað á Dalvík. Einnig var hann kærður fyrir eignaspjöll, m.a. að sparka og berja gegnum rúður í Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar þannig að þær brotnuðu, að brjóta ofan af blöndunartækjum í snyrtiaðstöðu tjaldstæðisins í Ólafsfirði, að valda skemmdum á reiðhjóli, auk þess að vera valdur að skemmdum á ljósi í félagsmiðstöð í Tjarnarborg og að brjóta rúðu í félagsheimilinu. Eignaspjöll þessi voru unnin nú í ágúst og september síðastliðnum.

Ákærði játaði brot sín skýlaust og þótt sök hans nægilega sönnuð. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að árás hans var fólskuleg, en önnur brot hans hefðu ekki valdið stórfelldu tjóni. Til þess var einnig litið að hann er ungur að árum og hefur játað brot sín greiðlega. Hann hefur átt við nokkra félagslega erfiðleika að stríða síðustu ár, en hefur nú notið sérhæfðrar meðferðar fyrir ungmenni og hefur hlotið starf í heimabyggð, segir í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra. Þótti refsing hans því hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára auk þess sem honum var gert að greiða skaðabætur og hluta málskostnaðar.