Hellu- Í tilefni 1000 ára kristnitöku var nýverið haldin hátíðarmessa í Þykkvabæjarkirkju og samkoma að henni lokinni á Laugalandi í Holtum. Vel var vandað til allrar dagskrár og fjölbreytt tónlistaratriði settu svip sinn á daginn.
Hellu- Í tilefni 1000 ára kristnitöku var nýverið haldin hátíðarmessa í Þykkvabæjarkirkju og samkoma að henni lokinni á Laugalandi í Holtum. Vel var vandað til allrar dagskrár og fjölbreytt tónlistaratriði settu svip sinn á daginn. Var þetta önnur hátíðin af þremur sem haldnar eru í tilefni kristnitökuafmælisins í prófastsdæminu, en sú fyrsta var í júní sl. í Fljótshlíð og á Hvolsvelli, en sú þriðja verður í Odda og á Hellu um hvítasunnuna árið 2000.

Við hátíðarmessuna þjónaði sóknarpresturinn sr. Sigurður Jónsson fyrir altari, en prófastur Rangárvallaprófastsdæmis, sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prédikaði. Sameinaðir kirkjukórar Odda- og Fellsmúlaprestakalla sungu við athöfnina undir stjórn Nínu M. Morávek og Eyrúnar Jónasdóttur, en hún söng jafnframt einsöng. Organistar voru Hannes B. Hannesson og Guðjón Halldór Óskarsson og á trompet lék Jóhann Stefánsson.

Að messu lokinni var dagskrá á Laugalandi í Holtum þar sem dr. Gunnlaugur A. Jónsson flutti erindi um vistfræði í ljósi Gamla testamentisins og dr. Sigurður Á. Þórðarson um safnaðaruppbyggingu á nýrri öld. Að þeim loknum tók við fjölbreytt tónlistardagskrá með sama kór og við hátíðarmessuna auk stúlkna- og barnakóra Odda- og Þykkvabæjarkirkna. Yngri nemendur Laugalandsskóla fluttu söng- og leikatriði, Guðríður Júlíusdóttir söng einsöng og Kvennakórinn Ljósbrá flutti einnig nokkur lög.

Um þrjú hundruð gestir þáðu kaffi og glæsilegar veitingar í boði Héraðsnefndar Rangárvallasýslu bornar fram af kvenfélagskonum í kvenfélögunum Lóu, Einingu og Framtíðinni. Á hátíðinni héngu málverk listamannsins Gunnars Arnar í Kambi á veggjum auk þess sem fjölbreytt úrval krossa og helgimuna úr einkaeigu var til sýnis.