BÆJARSTJÓRN Hornafjarðar samþykkti í fyrrakvöld að láta fara fram skoðanakönnun meðal íbúa sveitarfélagsins um það hvort Hornafjörður eigi að tilheyra Suðurkjördæmi eða Norð-Austurkjördæmi þegar kemur til breytinga á núverandi kjördæmaskipan.

BÆJARSTJÓRN Hornafjarðar samþykkti í fyrrakvöld að láta fara fram skoðanakönnun meðal íbúa sveitarfélagsins um það hvort Hornafjörður eigi að tilheyra Suðurkjördæmi eða Norð-Austurkjördæmi þegar kemur til breytinga á núverandi kjördæmaskipan.

Undanfarið hafa miklar umræður spunnist á Hornafirði um kjördæmamálið. Bæjarstjórn Hornafjarðar hóf þessa umræðu í haust og hefur staðið að kynningu á málinu fyrir íbúa sveitarfélagsins, meðal annars með málþingi fyrir viku.

Síðastliðna viku hefur staðið yfir söfnun undirskrifta meðal íbúa sveitarfélagsins þar sem þess er farið á leit við bæjarstjórn Hornafjarðar að hún standi að almennum kosningum meðal íbúanna þannig að afstaða þeirra fái að koma fram í þessu máli. Um átján prósent kjósenda í sýslunni skrifuðu undir þessi tilmæli.

Skiptar skoðanir hafa verið innan bæjarstjórnar um málið. Nokkrir bæjarstjórnarmenn hafa ítrekað lýst því yfir að það sé þeirra vilji að gengið verði til kosinga meðal íbúanna. Niðurstaðan varð þó sú að öll bæjarstjórnin utan einn fulltrúa samþykkti að gerð yrði skoðanakönnun í stað kosninga. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða fyrirtæki verði falið að framkvæma könnunina. Mikilvægt er talið að um 6-700 manna úrtak verði að ræða, sem er nær helmingur kjósenda sveitarfélagsins.

Jafnframt var það samþykkt af bæjarstjórn Hornafjarðar að vinna sameiginlega að átaki er miði að því að efla héraðið og móta stefnu fyrir sveitarfélagið þar sem dregin verði fram megineinkenni þess og sérstaða. Markmiðið sé að byggja upp öflugra samfélag óháð kjördæmamörkum í landinu. Einnig verði skorað á ríkisstjórn og Alþingi að standa við fyrirheit um að efla landsbyggðina og taka tillit til vaxandi staða eins og Hornafjarðar við uppbyggingu opinberrar þjónustu.