HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm héraðsdóms um tveggja og hálfs árs fangelsi yfir manni sem var sakfelldur fyrir að vera með rúm tvö kíló af hassi í fórum sínum og ætlaði það til sölu.

HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm héraðsdóms um tveggja og hálfs árs fangelsi yfir manni sem var sakfelldur fyrir að vera með rúm tvö kíló af hassi í fórum sínum og ætlaði það til sölu. Hins vegar tekur Hæstiréttur einnig undir þá niðurstöðu héraðsdóms að refsinguna skuli skilorðsbinda, þar sem ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en um tveimur árum eftir að lögreglurannsókn lauk.

Sannað þótti að maðurinn hefði höndlað með hasskílóin tvö, en hann var sýknaður af ákæru um að hafa átt og ætlað að selja 350 grömm af amfetamíni sem fundust í frystihólfi þar sem ekki var ljóst hversu margir hefðu haft aðgang að því hólfi.

Hæstiréttur sakfellir manninn fyrir að hafa haft í vörslu sinni verulegt magn fíkniefna og segir refsingu hans vegna þess hæfilega ákveðna í héraðsdómi fangelsi í 2 ár og 6 mánuði, en til frádráttar kemur 22 daga gæsluvarðhald. Þá segir: "Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákæra í málinu ekki gefin út fyrr en um tveimur árum eftir að rannsókn lögreglunnar á því lauk. Þessi vítaverði dráttur hefur ekki verið skýrður," segir Hæstiréttur og bendir á að slíkur dráttur brjóti í bága við lög um meðferð opinberra mála og sé í andstöðu við stjórnarskrá og ákvæði samninga um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Þess vegna sé staðfest niðurstaða héraðsdóms um að binda refsinguna skilorði.