Á ALMENNUM félagsfundi í Félagi eldri borgara í Reykjavík var samþykkt tillaga frá Páli Gíslasyni, fyrrverandi formanni félagsins, þar sem lýst er eindregnum stuðningi við tillögu forystumanna Verkamannasambandsins um að launahækkanir á næstu árum verði miðaðar við krónutölu og að hún verði sú sama til allra. Prósentuhækkunum er hafnað þar sem slík hækkun "auki launamun og misræmi í afkomu fólks".

Á fundinum fluttu Margrét H. Sigurðardóttir og Árni Brynjólfsson framsöguræður um kjör aldraðra og hvernig breytingar í skattamálum hafa haft áhrif á kjör eldri borgara með tilliti til breytinga á lífeyrisgreiðslum. Þá voru lagðar fram samanburðartölur yfir kjör aldraðra og almenns launafólks.

Hervar Gunnarsson, varaforseti ASÍ, og Ögmundur Jónasson, formaður BSB, mættu á fundinn og ræddu um stöðu eldri félaga í stéttarfélögunum og hvers væri að vænta í komandi kjarasamningum fyrir þennan aldurshóp.

Krafist hækkunar lífeyris

Í lok fundarins var borin fram svohljóðandi ályktun: "Á undanförnum átta árum hafa samanlagðar greiðslur almannatrygginga á grunnlífeyri og tekjutryggingu eldri borgara sífellt verið að skerðast hlutfallslega. Breytingar á upphæð þessara tryggingagreiðslna hafa ekki fylgt almennri þróun launa í landinu. Er miðað við hlutfall af almennum dagvinnulaunum verkamanna á höfuðborgarsvæðinu skv. mælingu Kjararannsóknanefndar á laununum og skv. staðtölum almannatrygginga um upphæð grunnlífeyris og tekjutryggingar. Á þessum átta árum frá 1991 hafa þessar greiðslur lækkað sem hlutfall af launum frá því að vera tæp 52% af meðaldagvinnulaunum verkamanna á höfuðborgarsvæðinu niður í um 44% nú, 1999.

Af framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2000 verður ekki annað séð en gert sé ráð fyrir áframhaldandi lækkun þessa hlutfalls. Slíkt er óþolandi, ekki síst nú þegar fram kemur í stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar að þjóðin sé að upplifa lengsta og besta hagvaxtartímabil í sögu lýðveldisins.

Því skorar almennur félagsfundur í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni haldinn 30. október 1999 á stjórnvöld að gera nú þegar ráðstafanir til að snúa þessari óheillaþróun við þannig að full leiðrétting náist nú við lok árs aldraðra".