LÖGÐ hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um að menntamálaráðherra verði falið að beita sér fyrir því að íslenskt sjónvarpsefni verði textað eftir því sem við verður komið til hagsbóta fyrir heyrnardauft fólk sem við núverandi aðstæður eigi erfitt með að fylgjast með íslensku efni í sjónvarpi. Það eru þrír þingmenn Samfylkingar, Sigríður Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jóhann Ársælsson sem leggja tillöguna fram.

Í greinargerð segir að ljóst sé að heyrnarlausir og heyrnardaufir eigi mun erfiðara með að fylgjast með innlendu sjónvarpsefni en erlendu því að aðaltengiliður þeirra við efnið sé skrifaði textinn sem fylgi með. Hann hefur hins vegar fram að þessu aðeins fylgt erlendu efni sem hefur verið íslenskað.

Fram kemur í greinargerðinni að 15-18 þúsund manns noti heyrnartæki að staðaldri og að talið sé að á milli 25 til 30 þúsund Íslendingar séu heyrnarskertir en vilji lifa í íslensku málsamfélagi og geti það.

Segir ennfremur að annars staðar á Norðurlöndum sé textun innlends efnis orðin sjálfsagður liður í rekstri sjónvarpsstöðva og að einnig megi benda á að textun íslensks efnis ýti undir bætta lestrargetu heyrnarskertra barna og unglinga.