ÞAÐ sem mér hefur þótt mest um vert (af mörgu athyglisverðu) í umræðunum um 1000-ára afmæli landafundaferðar Leifs Eiríkssonar, til Vínlands í Vesturheimi, er það, að sannindi Íslendingasagna koma því betur í ljós sem nánar er athugað.

ÞAÐ sem mér hefur þótt mest um vert (af mörgu athyglisverðu) í umræðunum um 1000-ára afmæli landafundaferðar Leifs Eiríkssonar, til Vínlands í Vesturheimi, er það, að sannindi Íslendingasagna koma því betur í ljós sem nánar er athugað.

Mér er í fersku minni hvernig menn brugðust við, þegar Helge Ingstad kom fram með sínar óhrekjanlegu sannanir fyrir komu norrænna manna til Nýfundnalands, á söguöld Íslendinga. Það kom hik og fát á marga fræðimenn í þeim greinum, sem þetta varðaði. En sumir Norðurlanda-háskólamenn voru beinlínis rótarlegir og persónulegir í garð þeirra Ingstad-hjóna, og er engin ástæða til að leyna því, þótt langt sé um liðið, að þar var fremstur í flokki Åge Roussell, danskur fornleifafræðingur, sem verst lét, og lítilsvirti frú Önnu Stínu Ingstad sem fræðimann. Þegar Óslóarháskóli neyddist til að gefa Helge Ingstad heiðursdoktors-nafnbót, hrökk óvart út úr ræðumanninum: "lille Ingstad"(!) - Þetta var umtalið, sem brautryðjandinn hafði áunnið sér hjá hinum sérlærðu.

Þess er gott að minnast að hlutur Íslendinga að þessu máli var mun betri en hinna. Það var reyndar svo, að margir háskólar og fræðasetur vestan hafs og austan voru farnir að bíða þess, að orð kæmi frá Íslandi. Dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður (þá), próf. Þórhallur Vilmundarson og Gísli Gestsson, starfsmaður Þjóðminjasafns fóru vestur með Ingstad í næstu ferð, og þó að þeir væru varkárir, sagði Kristján, án fyrirvara, að tóftirnar í L'anse-aux-Meadows væru eftir járnaldarmenn. Það þýddi að þær væru eldri en byggingar frá 16. og 17. öld, og þetta nægði til að gefa umræðum stefnu. Það lá í augum uppi að rengingamenn höfðu vaðið í villu.

Rannsóknirnar urðu markvissari, og mönnum varð ljóst, að Íslendingasögur eru, eftir ástæðum, furðulega góðar heimildir um tímann þegar þær gerast; ekki tímann þegar þær eru ritaðar. Stjarnfræðilegar, gróðurfarslegar, mannfræðilegar og landfræðilegar upplýsingar Vínlandssagnanna koma heim við veruleikann; en þeir sem héldu hinu gagnstæða fram hafa þagnað.

Það er ekki hægt að ganga fram hjá því, nú þegar þessi mál eru endurvakin, að norski landkönnuðurinn Thor Heyerdahl - sem reri að vísu lengst af á allt önnur mið en hin norrænu - hefur á síðustu árum látið þau til sín taka, og er það vissulega lofsvert. Reyndar hafa íslenskir fræðimenn nýlega talið sig finna höggstað á framsetningu hans. Vera má, að rétt sé, og gagnrýni er nauðsynleg. En vilji menn veg Leifs Eiríkssonar sem mestan, þá er ekki lítilsvert, að maður í slíkri aðstöðu sem Heyerdahl er, skuli vilja efla frægðina.

Heyerdahl er reyndar með fleiri járn í eldinum; "Norðurlandabúarnir" í hinni fornu Mið-Asíu sem Kínverjar hafa verið að uppgötva menjar um að undanförnu - og Kennewick-maðurinn norræni níu þúsund ára gamli í Oregon eru meðal þess sem hann vekur máls á í víðasta samhengi sögunnar - allt staðreyndir sem margir Vesturlandamenn hafa farið í kringum fram undir þetta, þó að þær séu borðleggjandi.

En nú er margt að færast í átt til sannleiks og víðsýnis, og væri óskandi að íslenskir fræðimenn gætu þar orðið framarlega eða fremstir. Gagnrýni er nauðsynleg - en "gagnrýnin stígur aldrei feti fram úr hinu viðurkennda", eins og vitur maður hefur sagt.

Frá Þorsteini Guðjónssyni: