ÞAÐ tók Garðbæinga rúman hálftíma að hrista Árbæinga af sér þegar lið Stjörnunnar og ÍR mættust í Garðabænum í gærkvöldi því Fylkismenn gáfust ekki upp fyrr en í fulla hnefana, bókstaflega. Að lokum varð reynsluleysið þeim að falli og Stjörnumenn hrósuðu 22:16 sigri.

Gestirnir úr Árbænum ætluðu sér mikið og voru fyrri til að skora fyrstu níu mínúturnar á meðan Örvar Rúdólfsson í marki þeirra varði mjög vel. Þeir tóku á í vörninni en brutu byrjendalega af sér og fengu fyrir vikið tvívegis að kæla sig á bekknum en það nýttu Stjörnumenn sér til að ná til sín forystunni.

Í upphafi síðari hálfleiks skildu fjögur mörk liðin að - bil sem hægt var brúa en eftir fimm mörk Garðbæinga í röð á meðan Birkir Ívar Guðmundsson lokaði marki þeirra varð bilið óbrúanlegt. Hins vegar færðist óþarfa harka í leikinn og leikmenn komust upp með stimpingar, sem komu leiknum lítið við og komust upp með það því dómarar leiksins, Gunnlaugur Hjálmarsson og Arnar Kristinsson, áttu erfitt með að fylgjast með og voru oft með jafnlitla einbeitingu og leikmenn. Fylkismenn tók sig samt saman í andlitinu og skoruðu 8 mörk á móti 5 heimamanna áður en yfir lauk.

"Þetta var annar leikur okkar við þá í vikunni og það er alltaf erfitt að koma í síðari leik ef sá fyrri hefur unnist örugglega," sagði Arnar Pétursson eftir leikinn. "Við áttum erfitt með að ná baráttustemmningu auk þess sem Fylkismenn voru mun betri núna en við fengum stigin og það skiptir mestu," bætti Arnar við en hann og Björgvin Rúnarsson sýndu mest frumkvæði Garðbæinga. Birkir Ívar í markinu var Fylkismönnum óþægur ljár í þúfu en undir lokin lét hann sæti sitt eftir handa Árna Þorvarðarsyni, 18 ára pilti, sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna. Hilmar Þórlindsson fékk högg á nefið á fyrstu mínútunum og þar sem hann er ekki búinn að jafna sig eftir nefbrot í síðasta leik, fékk hann sér sæti á bekknum.

"Við vissum að við yrðum seinir af stað en mér finnst við taka framförum," sagði Þorvarður Tjörvi Ólafsson, leikstjórnandi Fylkismanna, eftir leikinn og bar sig vel. "Vörnin var góð og sóknarleikurinn að koma til en við gerum alltof mörg mistök og það varð okkur að falli í kvöld. Hins vegar er ég bjartsýnn á framhaldið og við ætlum með einhver stig í jólafríið," bætti Þorvarður Tjörvi við en hann bar uppi leik Fylkismanna ásamt Örvar í markinu en David Kekelija, Óymar Kruger og Ólafur Örn Jósepsson sýndu stöku tilþrif. Fylkismenn líða fyrir reynsluleysið, brutu til dæmis oftast alltof klaufalega af sér á meðan Garðbæingar komust upp með ýmislegt, jafnvel með ópum og að kasta sér í gólfið.

Stefán Stefánsson skrifar