RÚSSAR gerðu í vikunni tilraunir með gagneldflaug sem ætlað er að geta grandað flugskeyti búnu kjarnorkuvopnum. Litið hefur verið á tilraunina, þá fyrstu síðan 1993, sem svar við áætlunum Bandaríkjamanna um að koma upp öflugu eldflaugavarnakerfi er geti varið Bandaríkin fyrir kjarnorkuárás.

Rússnesk yfirvöld hafa einnig hótað að fjölga kjarnaoddum í langdrægum flugskeytum sínum og hafa lýst yfir vilja til að kaupa 11 hljóðfráar sprengiþotur af Úkraínumönnum. Vélarnar eru af gerðinni Tu-160 og geta borið kjarnavopn og myndu bætast við 6 slíkar þotur sem Rússar eiga fyrir.

Áætlanir Bandaríkjamanna um að koma sér upp eldflaugavarnakerfi til að verja sig fyrir kjarnorkuvopnaárás hafa valdið stjórnvöldum í Moskvu þungum áhyggjum. Stjórnvöld í Washington hafa lýst yfir vilja til að samningur um bann við gagneldflaugakerfum frá 1972, ABM-sáttmálinn svokallaði (Anti-Ballistic Missile Treaty), verði endurskoðaður svo að ríkjunum verði heimilt að koma sér upp slíku kerfi. Samkvæmt sáttmálanum hafa ríkin aðeins leyfi til að verja takmarkað svæði með gagneldflaugum en ekki allt það landsvæði sem ríkin ná yfir. Þannig er t.a.m. vitað að eldflaugavarnakerfi hefur lengi verið virkt umhverfis Moskvuborg. Ástæðan fyrir því að þessi tilhögun var bundin í sáttmálanum var sú að öðrum kosti yrði dregið úr fælingarmætti kjarnavopna. Gagnkvæm fæling var talin trygging fyrir friði.

Aðeins ætlað að verjast takmarkaðri árás

Ástæða þess að Bandaríkjamenn hafa farið fram á endurskoðun sáttmálans er ótti við að ríki eins og Norður-Kórea eða Írak gætu ógnað þeim með flugskeytum búnum kjarnaoddum. Fyrirhugaðir skotpallar gagneldflauga, sem bandarísk stjórnvöld hyggjast setja upp í Norður-Dakóta eða Alaska, munu aðeins vista um 100 slíkar flaugar. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, William Cohen, hefur sagt að eldflaugavarnakerfinu sé þannig aðeins ætlað að geta svarað takmarkaðri kjarnorkuárás. Kerfið geti ekki varið Bandaríkin fyrir árás Rússa sem fæli í sér að þúsundum kjarnaodda myndi rigna yfir landið. Því séu áhyggjur Rússa af því að kerfið dragi úr fælingarmætti kjarnorkuvopna þeirra óþarfar.

Rússar hafa mætt orðum ráðherrans með tortryggni og óttast að áætlanir Bandaríkjamanna geti verið vísir að öflugu varnarkerfi sem muni geta varið þau fyrir allsherjar kjarnorkuárás. Vitað er að Rússar hafa ekki bolmagn til að koma sér upp slíku kerfi.