FERÐAMÁLARÁÐ Íslands hefur kynnt flokkunarkerfi fyrir gististaði á Íslandi, sem taka mun gildi hinn 1. september á næsta ári. Samgönguráðherra fól ráðinu að semja staðalinn fyrr á árinu, sem og að hafa eftirlit með flokkun gististaðanna.

FERÐAMÁLARÁÐ Íslands hefur kynnt flokkunarkerfi fyrir gististaði á Íslandi, sem taka mun gildi hinn 1. september á næsta ári. Samgönguráðherra fól ráðinu að semja staðalinn fyrr á árinu, sem og að hafa eftirlit með flokkun gististaðanna. Samtök ferðaþjónustunnar voru höfð með í ráðum og tóku þau þátt í gerð staðalsins. Að sögn Tómasar Inga Olrich, formanns Ferðamálaráðs, er þetta í fyrsta skipti sem íslenskir gististaðir eru flokkaðir eftir íslenskum staðli.

Flokkunarkerfið er ekki lögbundið heldur er það hugsað sem markaðstæki fyrir eigendur og stjórnendur gistihúsa og þeim frjálst að óska eftir að gististaðir þeirra verði flokkaðir. Þá er kerfið ætlað ferðamönnum til glöggvunar, þannig að þeir viti við hverju er að búast er þeir velja sér gististað. "Kerfi sem þetta hefur reynst hvati til aukinna gæða," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri enn fremur og bendir á að oft þurfi menn ekki að laga nema nokkur smáatriði til að gististaðir þeirra færist upp um flokk.

Fáir hefðu fengið svo mikið sem eina stjörnu

Íslenska kerfið er samið að danskri fyrirmynd en lagað að íslenskum aðstæðum. Það tekur einungis til hlutlægra þátta þ.e. hvort tiltekin þjónusta eða aðstaða er til staðar en gæði þjónustunnar er ekki metin, enda er hún að sögn Magnúsar afar árstíðabundin hér á landi. Yfir 100 atriði eru tekin fyrir í staðli flokkunarkerfisins, allt frá fjölda herðatrjáa í fataskápum og staðsetningar rafmagnsinnstungna til stærðar herbergjanna og lyftufjölda á gististaðnum.

"Við fengum sérfræðinga frá Danmörku til að meta til reynslu 15 ólíka gististaði víðsvegar um landið og þá kom í ljós að mjög fáir hefðu fengið svo mikið sem eina stjörnu," segir Elías Gíslason, forstöðumaður ferðamálaráðs á Akureyri, og vísar til þess hversu nákvæmur staðallinn er. "Að mínu mati er hæpið að nokkur íslenskur gististaður fengi 5 stjörnur samkvæmt staðlinum, ef þeir væru metnir á þessari stundu," segir Magnús, "en það kemur að sjálfsögðu í ljós þegar flokkunin fer fram."

Danska kerfið er notað í Danmörku, á Grænlandi og Málmeyjarsvæðinu og er það, að sögn Magnúsar, von manna innan ferðamálagreinarinnar að með tímanum muni staðallinn verða samnorrænn.

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri tekur við umsóknum um flokkun gististaða. Starfsfólk skrifstofunnar mun einnig sjá um eftirlit með staðlinum og að fylgjast með þróun gistihúsa þannig að flokkunarkerfið dagi ekki uppi heldur verði í samræmi við kröfur og þarfir markaðarins hverju sinni. Fyrirtækið Rekstur og ráðgjöf Norðurlandi ehf. mun sjá um að meta gististaðina.