ÞAÐ ÞÓTTI flestum óðs manns æði þegar Vince Clark sagði skilið við félaga sína í Depeche Mode til að helga sig léttri popptónlist. Ekki verður þó á móti því mælt að ákvörðunin hafi verið skynsamleg þegar upp var staðið; Depeche Mode varð með vinsælustu hljómsveitum seinni tíma, og Clarke ávaxtaði pund sitt vel, eins og heyra má á nýrri safnskífu Yazoo-laga.

Clarke átti þátt í að stofna Depeche Mode en sagði skilið við sveitina vegna ágreinings um tónlistarstefnu. Fyrst eftir samstarfsslitin fór lítið fyrir honum, en síðan rakst hann á auglýsingu í poppblaði þar sem óskað var eftir blústónlistarmanni til að vinna með söngkonu. Söngkonan var Alison Moyet og þó að Clarke hefði lítinn áhuga á blús voru þau Moyet og Clarke með vinsælustu tónlistarmönnum Bretlands næstu ár, en nafnið var það eina blúskennda við samstarf þeirra. Fyrstu lögin sem þau sendu frá sér slógu í gegn og ekki síður fyrsta breiðskífan, Upstairs at Eric's, en um það leyti að önnur skífa kom út ákváðu þau að slíta samstarfinu. Moyet hóf sólóferil sem lokið er fyrir löngu, en Clarke stofnaði Erasure, sem var um tíma vinsælasta hljómsveit Bretlands og er enn að.

Á nýrri safnskífu, Only Yazoo, er safnað saman helstu lögum Yazoo, sem eru flest lög sveitarinnar reyndar, en einnig eru á plötunni endurgerðir þriggja laga.