ÞÁTTTAKA í atvinnulífi getur skipt sköpum fyrir fatlaða, aukið lífsánægju þeirra til muna og rofið félagslega einangrun.

ÞÁTTTAKA í atvinnulífi getur skipt sköpum fyrir fatlaða, aukið lífsánægju þeirra til muna og rofið félagslega einangrun. Auk þess eru fatlaðir oft jafn góðir ef ekki betri starfskraftar en þeir ófötluðu og því geta fyrirtæki haft beinan hag af því að ráða þá til sín, fyrir utan þann óbeina hag allra sem felst í því að eyða fordómum með því að fólk fái að umgangast og kynnast fötluðu fólki á vinnustað sínum.

Þetta er meðal þess sem kom fram á atvinnumálaráðstefnu Öryrkjabandalags Íslands sem haldin var í gær. Markmið ráðstefnunnar var að vekja athygli á þeim úrræðum sem eru til staðar í atvinnumálum fatlaðra hér á landi og til að ræða yfirvofandi breytingar sem felast í yfirtöku sveitarfélaganna á málefnum fatlaðra, en vilji Öryrkjabandalagsins er sá að atvinnumál fatlaðra verði þá felld undir almenn atvinnumál hjá Vinnumálastofnun.

Þarf að auka atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði

Margir fatlaðir eru þegar úti á vinnumarkaðnum, ýmist á vernduðum vinnustöðum, í störfum hjá hinu opinbera eða einkafyrirtækjum. Samt sem áður þykir nauðsynlegt að auka atvinnuþátttöku þeirra til muna, leita nýrra atvinnumöguleika fyrir þá, ásamt því að veita þeim stuðning við atvinnuleit, aðlögun og starfsþjálfun.

Elísabet Guttormsdóttir, deildarstjóri atvinnudeildar fatlaðra hjá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins, var meðal framsögumanna á ráðstefnunni og lýsti hún vinnusamningum öryrkja sem Tryggingastofnun gerir við fyrirtæki á almennum vinnumarkaði. Tryggingastofnun borgar þá 25 til 75% af launakostnaði starfskraftsins í ákveðinn umsaminn aðlögunartíma.

Ragnar Árnason, lögmaður Samtaka atvinnulífsins, hélt framsögu og sagði hann nokkuð mörg fyrirtæki á almennum vinnumarkaði hafa reynslu af því að vera með fatlaða í vinnu og að almenn ánægja ríki með störf þeirra. Hann sagði ýmsar leiðir mögulegar til að auka þátttöku fatlaðra enn frekar í atvinnulífinu og þær hindranir sem helst þyrfti að yfirstíga væru fordómar og aukinn kostnaður. Sigrast mætti á fordómum með fræðslu og að framlög frá hinu opinbera gætu komið til móts við þann aukna kostnað sem hlytist af starfsþjálfun og aðlögun.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Ragnar að fyrirtæki vissu almennt ekki af vinnusamningum öryrkja sem Tryggingastofnun gerir við fyrirtæki. Hann sagði að með réttri hvatningu gætu fleiri fyrirtæki verið tilbúin að láta á það reyna að ráða til sín fatlað starfsfólk og að til greina kæmi að Samtök atvinnulífsins vektu athygli félagsmanna sinna á því að þeir gætu fengið allt að 75% af launakostnaði þeirra endurgreidd til að byrja með.

Hann ítrekaði einnig hversu góða reynslu fyrirtæki hefðu af fötluðum starfskröftum, en þarna væri um að ræða fólk sem hefði mikla löngun til að komast út á vinnumarkaðinn. Fatlaðir væru því oft á tíðum áhugasamari, samviskusamari og stöðugri starfskraftar og því væri þetta mjög jákvæður valkostur fyrir fyrirtæki. Ragnar benti einnig á að með aukinni tækniþróun væri sífellt auðveldara fyrir líkamlega fatlaða að vinna fjölbreyttari og flóknari störf.

Geysir veitir fólki tækifæri til að rækta hæfileika sína

Sindri Einarsson er félagi í klúbbnum Geysi þar sem meðal annars er rekin vinnumiðlun fyrir fólk sem á við geðræn vandamál að stríða. Sindri hélt framsögu þar sem hann sagðist hafa unnið ótal störf í gegnum tíðina en lýsti því jafnframt að honum hefði reynst erfitt að haldast í vinnu.

Að vera virkur í Geysi létti hins vegar þá stöðugu baráttu við umhverfið sem vandamálum hans fylgja og sá félagsskapur og stuðningur sem hann fengi þar gerði honum auðveldara að endast í starfi. Hann sagði að klúbburinn Geysir reyndist félagsmönnum sínum mikill styrkur því hann veitti þeim tækifæri til að rækta hæfileika sína, kynnast öðru fólki, komast út á vinnumarkaðinn og standa sig.