MARGIR hafa neikvætt viðhorf til rafkrampameðferðar við geðsjúkdómum, en goðsögnin um þessa lækningaaðferð er byggð á miklum misskilningi, að því er fram kemur í októberhefti bandaríska blaðsins Mayo Clinic Proceedings.

MARGIR hafa neikvætt viðhorf til rafkrampameðferðar við geðsjúkdómum, en goðsögnin um þessa lækningaaðferð er byggð á miklum misskilningi, að því er fram kemur í októberhefti bandaríska blaðsins Mayo Clinic Proceedings. Þar er greint frá rannsókn sem leiddi í ljós að langflestir þeirra, sem gangast undir rafkrampameðferð, eru ánægðir með hana.

Vísindamenn við Mayo Clinic í Rochester í Minnesota þróuðu aðferð til að mæla ánægju geðsjúklinga, sem gangast undir rafkrampameðferð, og könnuðu viðhorf þeirra til hennar. 91% sjúklinganna reyndist fegið því að hafa fengið merðferðina og hafði mun jákvæðari viðhorf til hennar en viðmiðunarhópurinn.

Meðferð í 60 ár

Læknar hafa beitt rafkrampameðferð við alvarlegu þunglyndi og geðsjúkdómum í 60 ár. "Menn gætu haldið að hún sé æ minna notuð vegna þess að fleiri lyf eru á boðstólum, en staðreyndin er sú að það er enn til kjarnahópur sjúklinga sem hefur ekki gagn af lyfjunum," sagði Bruce Cohen, forstöðumaður rafkrampaþjónustu Virginíu-háskóla. Hann leiddi jafnvel getum að því að fleiri gengjust undir rafkrampameðferð en nokkru sinni fyrr.

Færri aukaverkanir

"Henni fylgja engir kippir, skjálftar eða beinbrot," sagði Teresa Rummans, einn vísindamanna Mayo Clinic. "Dregið hefur stórlega úr aukaverkununum."

Gerðar hafa verið ýmsar úrbætur á rafkrampameðferðinni til að gera hana árangursríkari og hættuminni, m.a. með deyfingu og vöðvaslakandi lyfjum. Ennfremur er fylgst mjög grannt með sjúklingunum með heila- og hjartarafritum.