Framleiðandi: John S. Lyons, Suzanne Todd, Eric McLeod, Demi Moore, Mike Myers, Jennifer Todd. Leikstjóri: M. Jay Roach. Handritshöfundur: Michael Myers, Micahel McCullers. Kvikmyndataka: Ueli Steiger. Tónlist: George S. Clinton. Aðalhlutverk: Michael Myers, Heather Graham, Robert Wagner, Rob Lowe, Seth Green, Tim Robbins. (95 mín.) Bandaríkin. Myndform, 1999. Myndin er bönnuð innan 12 ára.

Kvensami ofurspæjarinn Austin Powers snýr aftur ásamt fríðu föruneyti í þessari fínu framhaldsmynd "Austin Powers: International Man of Mystery". Þar sem Powers er staddur er dr. Evil ekki langt undan og fer erkifjandi hans aftur til fortíðar til þess að stela karlmennsku Powers og án hennar verður Austin að sigrast á dr. Evil og fylgisveinum hans.

Líkt og í fyrri myndinni er hællærishúmorinn aldrei langt undan en Myers kemur inn með eina persónu sem knýr fast á dyr allrar velsæmi. Sú persóna er Feiti skíthællinn (leikinn af Myers), þessi persóna má segja sé lokaorðið í neðanbeltisbrandaramenningu Bandaríkjanna og þarf að sjá myndina til þess að átta sig á hvað er verið að tala um. Eins og í fyrri myndinni er persóna dr. Evil mun fyndari heldur enn Powers og atriðin með honum (sérstaklega Jerry Springer atriðið) mörg hver óborganleg. Það er smá vottur af hugmyndaskorti í handritinu en myndin er aldrei leiðinleg og ætti að kitla hláturtaugar flestra.

Ottó Geir Borg