Ég trúi að fleirum en mér finnist ástæða, segir Aðalsteinn Gunnarsson, til að sniðganga verslanir með áfengisauglýsingar.

NÝLEGA var opnuð ný og glæsileg verslun Nýkaupa í Kringlunni. Allt var þar vel skipulagt og vöruval mikið og gott. Einn alvarlegur ljóður var þó á opnun verslunarinnar, sú ákvörðun forsvarsmanna hennar að setja upp líkingu vínbúðar, sem reyndar er afgirt með vírneti og lokuð almenningi. Uppsetningunni var ætlað að vera innlegg í þeirri kröfu matvörukaupmanna að mega selja áfengt öl og létt vín með matvörum.

Til að vekja athygli á hugmyndinni voru tveir af vinsælustu leikurum þjóðarinnar fengnir til að leika hlutverk tveggja ógæfumanna sem illa höfðu orðið úti vegna áfengisneyslu. Ofneysla áfengis er ekkert grín.

Það skýtur skökku við að verslun sem telur sig fjölskylduvæna í verðlagi og vönduðu vöruvali skuli á tímum hörmunga í áfengis- og öðrum vímuvanda gera kröfu um frekara aðgengi að áfengum drykkjum.

Morgunblaðið birti nýlega yfirlit um fjölda vínveitingastaða í Reykjavík og taldi þá um 170 og fleiri væntanlega. Sömu daga voru fréttatímar og umræðuþættir í sjónvarpi uppfullir af þeim gríðarlega vanda sem fíkniefni valda. Er ekki öllum ljóst að nánast enginn verður fíkniefnavanda að bráð nema að undangenginni notkun áfengra drykkja. Áfengisneyslu sem gjarnan byrjar með öldrykkju. Sem betur fer hafa flestir foreldrar áhyggjur af ástandinu og til marks um það eru mótmæli þeirra við uppsetningu vínveitingastaða í íbúðahverfum.

En betur má ef duga skal. Mesta og besta fyrirmynd barna og ungmenna eru foreldrarnir. Er of miklu fórnað að láta áfengisneyslu eiga sig meðan á uppeldinu stendur? Þörf barna okkar fyrir vímuefnalaust umhverfi er miklu meiri en þörf okkar fyrir áfengi. Tökum afstöðu á móti ríkjandi vandræðaástandi. Frjálsræðið er yfirleitt ágætt en enginn er frjáls sem áfengi og önnur vímuefni ná tökum á og því má telja betur heima setið en af stað farið.

Umræðan stendur alltof mikið um hvernig bjarga megi þeim sem illa eru komnir í stað þess að fyrirbyggja og forða vandræðum.

Nú er tímabært að taka höndum saman um heilbrigðan lífsstíl sem sameinar fjölskylduna í skemmtilegri samveru án vímuefna.

Mér eldra fólk telur litlar líkur á að það sé í anda frumkvöðuls Hagkaups að verslunin berjist með þessum hætti fyrir frekari dreifingu áfengra drykkja og mikill misskilningur ungra stjórnenda fyrirtækisins að það veiti þeim brautargengi.

Eins og Bónus-verslunin er til fyrirmyndar með þá fjölskylduvænu stefnu að selja ekki tóbak eru forráðamenn verslana með nauðsynjavörur hvattar til að hugleiða hvað fjölskyldum á öllum aldri er nauðsynlegast. Það er allavega ekki frekari dreifing áfengra drykkja.

Ég trúi að fleirum en mér finnist ástæða til að sniðganga verslanir með áfengisauglýsingar.

Höfundur er trésmiður og templari.