Efling náttúruverndar er skynsamleg fjárfesting, segir Siv Friðleifsdóttir, og nauðsynleg forsenda aukinnar umferðar um óbyggðir landsins.

FERÐAÞJÓNUSTA eykst hröðum skrefum á Íslandi og er fyrir löngu orðin ein af helstu stoðum efnahagslífsins. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu námu 26,3 milljörðum króna árið 1998. Það ár komu hingað til lands yfir 230.000 erlendir ferðamenn, sem var um 15,3% aukning frá árinu á undan. Aukning á fjölda ferðamanna á þessu ári verður líklega enn meiri og því er spáð að 340.000 manns sæki okkur Íslendinga heim árið 2005.

Á sama tíma eykst umferð Íslendinga um landið sitt, ekki síst um óbyggðir og hálendið. Innlend ferðamennska er ekki aðeins mikilvæg tekjulind fyrir margar byggðir, heldur tengir hún þjóðina traustari böndum við landið sem hún byggir.

Búum okkur undir framtíðina

Þessi mikla aukning í ferðamennsku er að sjálfsögðu af hinu góða. Hún vekur á hinn bóginn nokkrar spurningar um hvernig best sé að búa sig undir framtíðina.

Hver er sú auðlind sem stendur undir stórauknum tekjum af ferðaþjónustu? Því er fljótsvarað. Langflestir erlendir gestir sem hingað koma nefna náttúru landsins sem helstu ástæðu þess að þeir koma hingað. Ef spurt er nánar nefna menn atriði eins og óbyggðir og víðerni, hreint loft og návígi við sköpunarkrafta íss og elds. Óblítt náttúrufar og öræfi landsins mega því með réttu teljast ein helsta auðlind Íslendinga, í peningum mælt. Ekki má gleyma því að gott markaðsstarf og mannauðurinn í ferðaþjónustunni er nauðsynleg forsenda þess að koma þessari auðlind í verð, en það breytir ekki því að fáir myndu sækja okkur heim ef hér væri ekki sérstæð náttúra.

Þolmörk ferðamannastaða

Náttúrufegurðin er auðlind sem ekki má vanmeta. Hætt er við að gengið sé á þessa auðlind ef við nýtum hana ekki rétt. Ferðamannastaðir hafa þolmörk, ekki síður en fiskistofnar. Sé farið yfir þessi mörk láta þeir á sjá, stundum til frambúðar. Við þekkjum dæmi um slíkt. Viðkvæm kóralrif eru skemmd af óaðgætnum sportköfurum, sem leita annað þegar rifin láta á sjá. Á sumum baðströndum við Miðjarðarhafið hefur orðið hrun vegna mengunar. "Ósnortin" svæði missa fljótt aðdráttaraflið þegar fjöldi manns flykkist þangað í leit að friðsæld og fámenni.

Hér á Íslandi höfum við einnig dæmi um að landið hafi látið á sjá vegna ágangs ferðamanna. Dæmi um slíkt eru t.d. traðk á hverahrúðri og sár í mosa og jarðvegi vegna umferðar farartækja, hesta og jafnvel gangandi fólks. Úrgangur getur orðið til vandræða þar sem ekki er aðstaða til að taka við honum. Ekki liggja enn sem komið er fyrir miklar rannsóknir á þolmörkum ferðamannastaða á Íslandi, en þó er vitað að á sumum stöðum, s.s. í Landmannalaugum, reynir nú þegar á þau. Eftirlit með umferð á hálendinu er sáralítið, þótt þörfin sé vissulega fyrir hendi.

Ágangur á viðkvæmum stöðum

Hvernig á að bregðast við of miklum ágangi á viðkvæmum stöðum? Augljósasta leiðin er að takmarka aðgang, en hún er varla sú heppilegasta. Betri leið er að reyna að auka þolmörk staðarins. Það er hægt t.d. með betri aðstöðu til móttöku ferðamanna, merkingu gönguleiða og aukinni landvörslu og eftirliti.

Aukinn ferðamannastraumur hlýtur að kalla á slíkar aðgerðir. Annað er virðingarleysi gagnvart náttúru landsins og mun að auki leiða til lægri tekna af ferðaþjónustu til lengri tíma litið. Efling náttúruverndar er skynsamleg fjárfesting og nauðsynleg forsenda aukinnar umferðar um óbyggðir landsins. Spurningin sem vaknar óhjákvæmilega er: Hver á að greiða fyrir aukna landvörslu og bætta aðstöðu við náttúruperlur? Skattgreiðendur hafa hingað til staðið straum af stærstum hluta kostnaðar við náttúruvernd, m.a. með framlögum af fjárlögum til Náttúruverndar ríkisins. Það getur varla talist óeðlilegt, því það er þjóðarhagur að standa vörð um náttúruminjar og sérstök svæði.

Hver greiðir vaxandi kostnað af verndun?

Ég tel eðlilegt að ferðaþjónustan komi í auknum mæli að því verkefni að tryggja að aukinn straumur ferðamanna spilli ekki náttúru landsins. Slíkt er í samræmi við þær meginreglur umhverfisréttar sem þjóðir heims samþykktu í Ríó árið 1992, en þar á meðal eru mengunarbótareglan - sem kveður á um að þeir sem spilla umhverfinu beri kostnað við að bæta skaðann eða við fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir skaða - og nytjagreiðslureglan, sem segir að þeir sem nytja náttúruauðlindir til ávinnings eða ánægju greiði kostnað sem fellur til við verndun og viðhald auðlindanna. Einnig má ganga að því vísu að sú krafa verði gerð á hendur stjórnvöldum að þau innheimti af ferðamönnum hluta af vaxandi kostnaði við verndun og viðhald landsins. Reyndar er þá kröfu að finna í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, þar sem gert er ráð fyrir að innheimtur sé aðgangseyrir að friðlýstum svæðum, alls 15 milljónir króna og þeim fjármunum varið til uppbyggingar þeirra svæða þar sem aðgangseyririnn er innheimtur. Málið er því þegar komið á dagskrá.

Hagsmunir fara saman

Hætta er á að slíkar kröfur geti leitt til árekstra á milli ferðaþjónustu og yfirvalda umhverfismála. Slíkt væri miður, þar sem hagsmunir beggja fara augljóslega saman. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem er í hvað örustum vexti á Íslandi og á heimsvísu og einn helsti vaxtarbroddurinn er svokölluð græn ferðamennska, sem byggir á vaxandi ásókn fólks í iðnvæddum löndum eftir að komast í snertingu við óspillta náttúru. Þar sem tekst að sameina náttúruvernd og gott aðgengi ferðamanna munu skapast vinsælir áfangastaðir fyrir þennan markað.

Brýnt er að sameinast um það verkefni að skipuleggja ferðaþjónustu á Íslandi í anda sjálfbærrar þróunar, þar sem menn geta notið náttúrunnar án þess að spilla henni. Annars er hætt við að við missum af tækifæri til þess að byggja upp blómlegan atvinnuveg í kringum náttúrufegurð Íslands, sem er hagur ferðaþjónustunnar, umhverfisins og Íslendinga allra.

Höfundur er umhverfisráðherra.