[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Annað kvöld heldur fönkhljómsveitin Jagúar tónleika í Íslensku óperunni í tilefni þess að sveitin hefur gefið út sína fyrstu breiðskífu sem nefnist einfaldlega Jagúar. Sigríður Dögg Auðunsdóttir ræddi við Börk Hrafn Birgisson, gítarleikara sveitarinnar.

JAGÚAR skipa Birkir Freyr Matthíasson sem leikur á trompet, Börkur Hrafn Birgisson á gítar, Daði Birgisson á rhodes-píanó og hljóðgervil, Hrafn Ásgeirsson á tenórsaxófón, Ingi S. Skúlason á bassa, Samúel Jón Samúelsson á básúnu og slagverk og Sigfús Óttarsson á trommur og slagverk.

Að sögn Barkar Hrafns verður vel til tónleikanna vandað. Notast verður við fyrsta flokks hljóðkerfi og sérhönnuð sviðsmynd mun setja svip sinn á tónleikana. Spiluð verða þau tíu lög sem finna má á breiðskífunni og eru jafnframt frumsmíð sveitarinnar.

Upphitunarhljómsveit frá Gíneu

Upphitunarhljómsveitin samanstendur af þremur Gíneubúum sem spila á ásláttarhljóðfæri. Þeir munu einnig leika með Jagúar í tveimur lögum. Þegar Börkur er spurður að því hvernig samstarf þeirra sé til komið segir hann að Gíneubúarnir hafi upphaflega komið hingað til lands til þess að kenna dans og áslátt í Kramhúsinu.

"Samúel, básúnuleikari, fór á námskeið hjá þeim á ásláttarhljóðfæri. Honum líkaði það mjög vel og spurði þá hvort þeir hefðu áhuga á að spila með okkur. Einn þeirra mætti síðan með trommuna sína á tónleika hjá okkur og spilaði með okkur allt kvöldið. Það var mjög skemmtilegt og okkur fannst þetta tilvalin nýbreytni," segir Börkur ennfremur.

"Við erum stór hljómsveit en samt sem áður höfum við alltaf verið tilbúnir til að vinna með öðrum. Við höfum fengið söngkonu til að syngja með okkur á tónleikum, rappara, ásláttarhljóðfæraleikara, blásturleikara og fleira. Það er mjög gaman að fá inn nýtt blóð sem hressir upp á lögin."

"Framhaldið er svo að fylgja plötunni betur eftir og kynna okkur," heldur hann áfram. "Við höfum til að mynda hvergi spilað úti á landi nema á Akranesi og því er tími til kominn að ferðast aðeins um landið," segir hann.

"Við erum strax farnir að hugsa um næstu plötu," heldur hann áfram. "Komnir með fullt af hugmyndum og farnir að semja. Stefnan er að fara utan næsta vor í umhverfi sem við þekkjum ekki, með mönnum sem við þekkjum ekki en vitum að eru hundrað prósent. Platan sem við erum að gefa út núna inniheldur öll fyrstu lögin sem við sömdum og það er nokkuð mikill djass á henni. Næsta plata verður líklega nokkuð aðgengilegri, okkur langar aðeins að prófa að poppa okkur upp, taka nýja stefnu og jafnvel að bæta inn söng að hluta til."