Alla tíð hafa Skjöldungar átt á að skipa dugmiklum skátaforingjum, segir Matthías Guðmundur Pétursson, sem lagt hafa ómældan tíma og alúð í félagsstarfið.

HINN 5. október árið 1969 stofnuðu skátar í Voga- og Heimahverfi nýtt skátafélag. Það er athyglisvert að af stofnendum félagsins sem voru tæplega þrjú hundruð talsins voru einungis fimmtán fjárráða. Mun meðalaldur skátanna hafa verið um 13 ár. Má með sanni segja að ungt fólk með bjartsýnina eina í veganesti hafi leitt skátafélagið fyrstu skrefin. Ekki má líta svo á að félagið hafi hafið störf upp úr þurru. Tæpum 15 árum fyrr höfðu vaskir strákar á allir á fimmtánda ári fengið í lið við sig framtakssaman skátaforingja, Hafstein Eyjólfsson, nú rafvirkjameistara í Keflavík, og stofnuðu skátasveitina Skjöldunga í Skátafélagi Reykjavíkur. Eru margir þeirra þjóðkunnir menn þótt hér sé einungis minnst á þá Jón Hákon Magnússon og dr. Eystein Sigurðsson. Þótt sveitin hafi verið fámenn í fyrstu óx hún og dafnaði og varð árið 1958 fullgild deild í Skátafélagi Reykjavíkur. Á árunum 1958-1969 efldist skátastarfið í Reykjavík mjög, ekki síst með tilkomu skipulagðrar foringjamenntunar og voru skátaforingjar Skjöldunga duglegir við að afla sér allrar fáanlegrar foringjamenntunar. Sérstaklega ber að minnast tveggja látinna félaga, sem áttu mestan og traustastan þátt í starfi Skjöldunga á þessum árum, þeirra Óla Kristinssonar og Hákonar J. Hafliðasonar, en báðir lögðu þeir grunn að öflugu skátafélagi með því að ala upp öflugan hóp skátaforingja. Þegar það var svo ákveðið árið 1969 að leggja niður Skátafélag Reykjavíkur og Kvenskátafélag Reykjavíkur og stofna í þeirra stað hverfisfélög byggðu hin nýju skátafélög á traustum grunni.

Stofnfundur Skjöldunga fór fram í húsi Vogaskóla og var fundarstaður troðfullur. Voru þar saman komnir skátar, foreldrar þeirra og gestir. Fyrir atbeina Helga Þorlákssonar skólastjóra, sem ávallt hefur haft skilning og áhuga á uppeldisgildi skátastarfsins, fékk skátafélagið inni í kjallara skólans. Helgi Þorláksson varð frá upphafi sérstakur verndari félagsins og talsmaður. Fyrsti félagsforingi Skjöldunga var Björgvin Magnússon skólastjóri, sem jafnframt var skólastjóri Gilwell-skólans, alþjóðlegs foringjaskóla skáta. Nutu hinir ungu skátaforingjar góðs af leiðsögn þessara reyndu skólamanna.

Stofnun félagsins vakti talsverða athygli og var mjög til stofnfundarins vandað. Þar talaði Jónas B. Jónsson skátahöfðingi, Þór Sandholt formaður Skátasambands Reykjavíkur auk félagsforingja en skátar fluttu annál Skjöldunga undir leikstjórn Gríms Þ. Valdimarssonar.

Eggert G. Þorsteinsson félagsmálaráðherra flutti kveðjur og árnaðaróskir ríkisstjórnarinnar og gat sérstaklega um gagnsemi skátahreyfingarinnar, sem hann sagðist þekkja vel af starfi sínu í skátafélagi.

Þó að sæmilega virtist tryggt með húsnæði félagsins í fyrstu reyndist það ekki vera svo og má segja að fyrstu tíu starfsárin hafi einkennst af húsnæðishraki og vandræðum sem því tengdist. Samt var skátastarfið rekið af áhuga og krafti og allir gerðu sitt til þess að kraftur væri í Skjöldungum er þeir gætu hafið störf í nýju glæsilegu félagsheimili árið 1979.

Á áttunda áratugnum hafði skátafélagið afnot af tveimur útileguskálum í nágrenni Reykjavíkur, öðrum við Elliðavatn en hinum við Lögberg. Er ekki vafi að þetta varð til þess að efla útilegustarf skátaflokka og skátasveita, sem mynduðu fyrir bragðið sterkari félagsheildir en ella. Eiga margir gamlir Skjöldungar góðar minningar úr Dalakofanum og Núpstúni. Síðar eignaðist félagið útileguskála á Hellisheiði, Kút og stórglæsilega útilífsmiðstöð við Hafravatn sem nefnd er Hleiðra, sem var aðsetur Skjöldunga hinna fornu.

Er vert í þessu sambandi að minnast eins ötulasta skátaforingja

Skjöldunga, Helga Eiríkssonar, sem nú er látinn, en hann var öflugur skálasmiður og stóð fyrir margs konar útilífsævintýrum fyrir

skátafélagið.

Ef nefna á sérkenni skátastarfs í Skátafélaginu Skjöldungum má einkum nefna áherslu á grundvallareiningu skátahreyfingarinnar, skátaflokkinn. Hafa skátaflokkarnir með tímanum eignast langa og skemmtilega sögu, sem

segir margt af hugmyndaheimi og uppátækjum krakka í höfuðborginni á liðnum áratugum. Áherslan á starfið í skátaflokknum birtist meðal annars í þeirri nýbreytni sem Skjöldungar brydduðu uppá með því að halda skátamót ætlað starfandi skátaflokkum. Hafa skátamót þessi, sem heita í höfuðið á elstu skátasveit félagsins, Minkasveit, verið afar vel heppnuð.

Þar hafa skátarnir þurft að sýna í verki kunnáttu í skátalistum þeim, sem æfðar voru á skátafundum.

Skátarnir í félaginu hafa verið duglegir að sækja skátamót og hafa fjölmennt á Landsmót skáta, þar sem þeir hafa staðið sig með prýði og unnið til margra verðlauna og viðurkenninga. Úr skátafélaginu Skjöldungum hafa margir af þeim sem eru í framlínu hreyfingarinnar komið og má þar m.a. nefna Ólaf S. Ásgeirsson skátahöfðingja.

Skjöldungar hafa einnig frá upphafi verið tengdir sterkum böndum

skátamiðstöðinni að Úlfljótsvatni og hafa margar frægar félagsútilegur verið haldnar þar.

Ófáir Skjöldungar eiga góðar minningar úr litlu kirkjunni að Úlfljótsvatni þar sem þeir unnu skátaheitið á sínum tíma.

Alla tíð hafa Skjöldungar átt á að skipa dugmiklum skátaforingjum, sem lagt hafa ómældan tíma og alúð í félagsstarfið. Á afmælishátíð 7.

nóvember gefst öllum Skjöldungum eldri og yngri kostur á að hitta þá og rifja upp gamlar minningar og hvetja unga skáta í starfi. Sérstaklega ber að nefna þau heiðurshjón Unni Sch. Thorsteinsson og Sigmund Guðmundsson félagsforingja til margra ára, sem hafa verið stoð og stytta félagsstarfsins frá upphafi, hvernig sem vindar hafa blásið. Á engan er hallað þó að sérstaklega sé til þeirra hugsað á afmælishátíð Skjöldunga.

Skátafélagið Skjöldungar hvetur alla Skjöldunga og vandamenn þeirra til að fjölmenna í Langholtskirkju kl. 15.00 sunnudaginn 7. nóvember til þess að gera sér glaðan dag og hitta Skjöldunga í starfi.

Höfundur er félagsforingi Skjöldunga.