ÓSKÖP er gaman að fá bréf sem eru góð á allan hátt. Og enn segi ég: þátturinn er ekki dómstóll, heldur vettvangur umræðu og skoðanaskipta. En ég er fjarska þakklátur Þórði Erni Sigurðssyni fyrir það sem hér fer á eftir: "Heill og sæll, Gísli.

ÓSKÖP er gaman að fá bréf sem eru góð á allan hátt. Og enn segi ég: þátturinn er ekki dómstóll, heldur vettvangur umræðu og skoðanaskipta. En ég er fjarska þakklátur Þórði Erni Sigurðssyni fyrir það sem hér fer á eftir:

"Heill og sæll, Gísli.

Lengi hef ég ætlað að skrifa þér en læt tilefnið bíða enn um sinn þar sem ég fæ nú ekki orða bundist út af öðru. Ég hef nefnilega athugasemdir að gera við atriði í bréfum tveggja heiðursmanna og birtust með stuttu millibili alveg nýlega í laugardagspistlum þínum mjöglesnum að verðleikum.

Í fyrrbirta bréfinu er vikið að íslenskun nafna á stöðum erlendis og þjóðhöfðingjum og talið til fordildar að iðka slíkt. Reyndar hygg ég að bréfritarinn hafi einkum viljað vara við tilgerð og smekkleysu í þessum efnum, en það varð alls ekki ljóst af dæmum sem hann tiltók. Því má Jóhann Karl Spánarkóngur ekki heita svo á Íslandi? Er honum eitthvað vandara um en Louis Quatorze eða þá Carolus Magnus (Charlemagne)? Tölum við um James the Second, son Charles the First?

Um staðaheiti gegnir, hygg ég, svipuðu máli. Fjöldi þeirra hefur átt sér íslenska mynd ævalengi, önnur skemur. Ekki veit ég til þess að nýlega hafi orðið samkomulag um að hætta að finna erlendum stöðum íslenskt nafn ef beint liggur við. Eigum við kannski að kalla Mexíkóborg Ciudad México? (Eða kannski bara Mexico City eins og margir reyndar gera?) Og úr því að maðurinn tiltók Bergen sem heppilegt íslenskt nafn, ættum við þá að hætta að tala um Kaupmannahöfn? Og eigum við að tala um Egil í York? Maðurinn vill hafa London og ekkert annað. Og engan andskotans Kænugarð og þá ekki Miklagarð við Sæviðarsund, væntanlega. Þarna er auðvitað einnig um stílfræðilegt atriði að ræða. Mér hefði til dæmis þótt ágætlega viðeigandi í frétt um uppákomu sem nokkrir Íslendingar lentu í nýlega, þegar verið var að handsama óbótamann, að tiltaka að atburðurinn átti sér stað í Þuslaraþorpi.

Hins vegar kann að vera rétt að láta nöfn erlendra skálda og listamanna að mestu óáreitt. Bæði Frakkar og Spánverjar gera þó það sem þeim sýnist við slík nöfn. Þannig vita Spánverjar að á Endurreisnartíma var uppi á Ítalíu snillingurinn Miguel Ángel, og í bókabúðum á Spáni fást þýddar skáldsögur eftir Carlos Dickens. Við tölum ævinlega um Hóras og Virgil og sá þýski Hænir var Fjölnismönnum hugstæður. Og þýddi ekki síra Jón Þorláksson Tilraun um manninn eftir Alexander Pópa og samin var í fjórum bréfum til Jóns lávarðar Bolingbroks? Í seinni tíð virðast menn feimnari orðnir við þessa útlensku dýrðarmenn.

Í hinu bréfinu er með réttu (og þó vonum seinna!) leiðréttur misskilningur margra um vonarpening en þó þannig að vonarpeningur er sagður búpeningur á vonarvöl (leturbreyting mín). Þegar gaus í Vatnajökli um árið gat fréttastofa RÚV "mökks" sem sæist langt að. Undirritaður gat ekki stillt sig um að spyrjast fyrir um þetta. Þegar þar kom talinu að líklega beygðist umrætt orð svipað og "köttur" kvað viðmælandi minn uppúr með að enginn skyldi fá sig til að fara með orðmyndina makkar á almannafæri. Nú kunna allir að beygja fjálglega nafn fyrirtækisins sem boraði og rekur göngin sælu. En úr því að annar eins beygingargarpur og þú, Gísli, ert bréfinu "í öllum greinum sammála" þá verður að vissu sá langvinni grunur minn að leynisátt útvalinna hafi tekist um að hætta að beygja sum orð nema þá í mesta hófi (eða hvað?). Eða er kannski með einhverju móti hægt að hengja sig í að betlistafurinn sé þarna í þolfalli?

En nú ætla ég úr einu í annað. Við höfum báðir áhyggjur af miðmyndinni, þessu mikla stolti tungunnar. Engu er líkara en fólk forðist þessa grein sagnbeygingarinnar eins og heitan eldinn. Oftar en einu sinni hefur þú átalið í íslenskuþáttunum þá áráttu manna að segja að hlutir eins og sögur, leikrit og stefnur flokka byggi á þessu eða hinu, og hafðu sæll gert. Hefurðu tekið eftir því að í seinni tíð eru bátar, skip og flugvélar hætt að hallast? Þau halla (líklega undir flatt), sbr. meðf. ljósrit úr Mbl. Tekið skal fram að dæmið er eitt af mjög mörgum svipuðum að undanförnu úr blöðum og öðrum fjölmiðlum.

Mál að hætta að sinni, og vertu margblessaður."

"Sjónarvottar sögðu að vélin hefði hallað mikið eftir lendinguna og runnið svo til á grasflöt."

(Mbl. 16. sept. 1999.) Áslákur austan kvað:

Mælti Sigurður bóndi á Gömlu-Grund:

Ég get ekki lifað þá sorgarstund,

þegar Gró tekur völdin

af Guðjóni á kvöldin

eins og rófan sé farin að hrista hund.

Snepill var látinn í póstkassa ekki fyrir löngu. Yfirskrift var "Árangurssögur", en höfundur enginn. Tvær fyrstu málsgreinarnar voru svo: "Soffía missti 13 kg. (svo) á 7 vikum. Erna missti 24 kg. (svo) á 16 vikum."

Ekki var þess getið, hvað þær hefðu misst. Vonandi ekki blýlóð ofan á tærnar á sér. Með velvild má ætla að þær Soffía og Erna hafi lést um þann þunga sem á sneplinum greindi eða lagt af sem því nemur.

Á ensku merkir to lose weight léttast eða leggja af. Þátíðin er lost. Að öllum líkindum er "missti" = léttist, lagði af, hrá þýðing úr ensku.

Á sneplinum mátti skilja að það hefði verið Soffíu og Ernu til góðs að "missa kílóin". En þá er þess að gæta að sögnin að missa er einkum höfð um slysni og tjón, og nafnorðið missir um það sem snertir menn sárast, svo sem ástvinamissir.

Í Fjölni var Jónasar Hallgrímssonar minnst m.a. svo:

Nú hlustum vér og hlusta munum löng

um, en heyrum ei - því drottinn vizkuhár

vill ekki skapa skáldin handa öngum;

nú skiljum vér, hvað missirinn er sár;

í allra dísa óvild nú vér göngum.

Þeir sem afbaka íslenskt mál, munu ekki ganga í vild góðra dísa, og hvetur umsjónarmaður fæðubótarfólk til þess að leggja rækt við móðurmálið ekki síður en líkamann.