Geisladiskur hljómsveitarinnar Jagúar, samnefndur sveitinni.

Geisladiskur hljómsveitarinnar Jagúar, samnefndur sveitinni. Jagúar skipa þeir Birkir Freyr Matthíasson (trompet), Börkur Hrafn Birgisson (gítar, "wah-wah"), Daði Birgisson (Rhodes-píanó og hljóðgervill), Hrafn Ásgeirsson (tenórsaxófónn), Ingi S. Skúlason (bassi), Samúel Jón Samúelsson (básúna, slagverk) og Sigfús Óttarsson (trommur, slagverk). Þeim til aðstoðar eru Dj Habit sem sér um plötuklór í "Bubba's Song" og Buzzbee sem leikur á "didgeridoo" í laginu "35 c". Öll lög eru eftir meðlimi Jagúar. Upptökum stýrðu Jagúarliðar í félagi við Ívar "Bongó" Ragnarsson. 52,37 mín. Íslenska umboðsskrifstofan gefur út.

ÞAÐ ER fönk á Fróni, frýs ei í æðum blóð. Sveittasta sveit landsins um þessar mundir, fönksveitin Jagúar, gefur sinn fyrsta hljómdisk út fyrir þessi jól. Jagúarmenn hafa verið iðnir við að koma íslenskum tréhestum til að hreyfa á sér skankana undanfarin ár og nú geta menn loks svitnað heima í stofu ef þeir kjósa svo.

Jagúarinn hefur einbeitt sér öðru fremur að ameríska tónlistarforminu "funk" sem er skilgetið afkvæmi sálartónlistar (e. soul) blökkumanna þar í landi. Fönkið, eins og það er kallað á miður góðri íslensku, er sveitt, heitt og hamslaust tónlistarform, sem hentar einkar vel til rassadillinga og mjaðmaskaks. Því er í raun bara um einn mælikvarða að ræða þegar svona plötur eru lagðar undir dóm. "Grúvar" platan eður e i? Virkar hún eða ekki?

Í viðtölum vegna téðrar skífu hafa Jagúarmen n lagt áherslu á að þeir hafi reynt eins og kostur er að skila af sér tónleikahljómi, fremur en þunnum og dauðum hljóðvershljómi. Platan var því tekin upp á fjórum dögum á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu og spilaði sveitin þannig að allir meðlimir voru að samtímis. Í hefðbundinni hljóðversvinnu eru einstök hljóðfæri og söngur hins vegar tekin upp sér.

Þetta tekst hjá piltunum á þann veginn að það er óneitanlega góður andi yfir plötunni, lögin eru skemmtileg og greinilegt að mikil spilagleði er í drengjunum. En það verður aldrei umflúið að platan er óneitanlega hljóðversskífa. Í gegnum tónlistarsöguna hafa menn oft reynt að skila inn hráum og villtum tónleikahjómi á hljóðversskífur og mín kenning er sú að það sé ekki hægt. Hljóðversskífa er hljóðversskífa. Tónleikaplata er tónleikaplata. Svo einfalt er það.

Piltarnir semja lög plöt unnar sjálfir og er það vel. Lögin eru öll án söngs og eru þau flest öll bráðskemmtileg og sum alveg fun(k)heit. Vissra djassáhrifa gætir í sumum þeirra og í öðrum fer Jagúarinn út fyrir fönkformið og leyfir sér að bregða á leik og hlaupa aðeins um.

Fyrsta lag plötunnar, "Malibu", kann ég sérstaklega vel að meta. Sólrík sveifla á haustmánuðum, angandi af sólarólíu eins og nafnið gefur til kynna. Í öðru lagi plötunnar, "Watermelon Woman", eru hins vegar hefðbundnari fönkslóðir troðnar. Þeir bræður, Daði (orgel) og Börkur (gítar), hafa fínasta tak á fantafönki því sem gjarnan má heyra í bláum myndum eða þá í svonefndum "blaxploitation"-myndum sem vinsælar voru á áttunda áratugnum (t.d. "Shaft" og "Superfly"). Gítarinn vælir á sannfærandi hátt og hljómborðsleikur er sömuleiðis vel "svartur".

Þriðja lagið, "Theme for Miguel", hefði allt eins getað heitið "Fanturinn" eða "Tuddinn". Þar kemur Ingi bassaleikari sterkur inn með ógnvænlega þétta bassalínu og er helst að halda að Les Claypool, bassaleikari bandarísku furðufönksveitarinnar Primus, hafi tekið sér bólfestu í líkama hans. Þegar hér er komið sögu eru Jagúarmenn komnir á gott skrið því strax á eftir kemur hið ofvirka og fáránlega skemmtilega "Gustav Blomkvist", þar sem Jagúarinn fær að leika lausum hala svo um munar.

Það er helst að "grúvið" detti svolítið niður um miðja plötu en hún réttir sig af undir lokin, þar sem tilraunastofa Jagúar er opnuð. Þar fer fremst í flokki lagið "35 c", en þar ljær breski "didgeridoo"-leikarinn Buzzbee Jagúar lið. Fyrir þá sem ekki vita er didgeridoo ástralskt frumbyggjahljóðfæri og t.d. hefur sálar-fönkarinn Jamiroquai notað það í verkum sínum.

Hljóðfæraleikur á plötunni er í góðu lagi fyrir utan lúðraþeyting sem er fullkaldur og stirður á köflum, hefði mátt vera sveittari og meira ögrandi. Einleikur hefði líka mátt vera meiri, fullmikill lúðrasveitarbragur á þessu stundum.

Á heildina litið sigrar platan á því að menn eru greinilega búnir að spila sig vel saman á undanförnum mánuðum og er útkoman því skemmtileg plata þar sem léttleiki og sönn gleði skín í gegn. Tilgangurinn með henni er að vera gleðigjafi til handa norpandi Frónsbúum og leysa Jagúaræður það verkefni farsællega á þessum frumburði sínum.

Arnar Eggert Thoroddsen