Dan Turéll var danskur rithöfundur sem lést 47 ára úr krabbameini. ÖRN ÓLAFSSON fjallar um Turéll sem skrifaði manna mest og lifði það að knæpa í miðbæ Kaupmannahafnar var nefnd eftir honum.
DAN Turéll er með kunnustu rithöfundum Dana. Jafnvel í lifanda lífi var knæpa í miðbænum nefnd eftir honum, og þó varð hann aðeins 47 ára, dó 1993 úr krabbameini. Hann vakti líka stöðugt athygli, bæði skrifaði hann mikið í blöðin og kom oft fram opinberlega, og svo hefur síst spillt fyrir sölu bóka hans, hve sérstætt útlitið var, rakað höfuð, spaðaskegg, svart naglalakk, kúluhattur, frakki og gleraugu einnig svart. Og sífellt birtust bækur eftir hann og einkum á tveimur sviðum, ljóð og reyfarar.

Kunnastur mun Turéll fyrir reyfara sína. Þeir gerast yfirleitt í Vesterbro-hverfinu í Kaupmannahöfn, við Aðalbrautarstöðina, umhverfis Istedgade. Þetta er gamalt verkalýðshverfi, en hefur síðustu áratugi verið miðstöð hverskyns kláms, vændis og eiturlyfjasölu, og því kjörinn vettvangur glæpasagna. Turéll fylgdi mjög staðlaðri fyrirmynd á þessu sviði, "harðsoðnu" bandarísku reyfurunum. Söguhetjan, sem upplýsir glæpina, er drykkfelldur blaðamaður, en hann er ekkert að berja fólk, eins og títt er í bandarísku fyrirmyndinni, þeim mun lunknari að veiða upp úr því leyndarmál og hugsa. Þessir reyfarar einkennast af félagslegu raunsæi, líkt og bækur Sjöwall og Wahlö, eða fyrirmyndar þeirra, Ed McBain. Pólitískt eru þeir til vinstri, þó ekki eins stórir í sniðum og bækur sænsku fyrirmyndarinnar. Megináherslan er á lýsingu lægstu stéttar þjóðfélagsins, tötraöreiganna. Þessir reyfarar urðu víða vinsælir, einnig á Íslandi. En mér sýnist ótvírætt að þeim hrakaði stöðugt, þeir urðu æ formúlukenndari, og þesslegri að höfundur væri bara að vinna fyrir sér.

Ljóðin vöktu fyrst verulega athygli á Turéll, 1973 þegar hann gaf út Karma cowboy, sem nýlega var endurútgefin í upprunalegu formi. Þetta er löng bók, uppundir 300 bls. og ýmist prentuð eftir vélriti eða handriti, eins og fleiri ljóðasöfn hans. Þetta eru "opin ljóð", eins og þá var tíska, ljóðmælandi talar um sjálfan sig við hversdagslegustu aðstæður, nefnir vini sína, lestrarefni og hugleiðingar. Titillinn helgast af því að þarna blandast saman svokölluð fjöldamenning, ekki síst bandarísk, mikið er vitnað í Andrés Önd, kúrekamyndir, Súpermann, djassleikara og tískuhöfunda 6. áratugsins; en á hinn bóginn kemur inn búddismi og taótíska þessa tíma. Allt skyldi fram, ekki aðskilja einkalegt og opinbert, og því er hér margt sem mátti þykja nýstárlegt 1973, en virðist helsti smálegt nú, þ.á m. flatrímaðar þýðingar bandarískra dægurlaga. Enn útþvældara er þó þegar Turéll yrkir á ensku. Hér eru m.a. prósaljóð um bernskuárin, og þann þráð tók Turéll upp og spann áfram í fyrstu lausamálsbók sína: Vangedebilleder 1975. Hann hélt sama ljóðformi alla tíð, dvelur við hversdagsleikann, en af meiri sjálfsgagnrýni, t.d. í hinstu bókinni, sem mótast af banalegu hans: Tja-a cha cha, 1993. En besta bók hans sem ég hefi séð er Kom forbi (1984), þar eru mismunandi þættir ljóðanna samstilltir að ákveðnu marki, svo rabbkennd sem þau þó eru. Þar er m.a. langt ljóð sem ég heyrði hann lesa upp hvað eftir annað, hann sagði að þannig yrði verk klassískt, að höfundur væri alltaf að trana því fram. Það heitir "For meget, mand". "Þegar mér finnst annað fólk vera að gera mér lífið óbærilegt," sagði Turell, "þá reyni ég að setja mig í þess spor." Og þarna lýsti hann lífi sínu sem einstæð móðir, bréfberi, gluggaþvottamaður og Frank Sinatra, svo salurinn lá í hlátri. Ljúkum þessu á glefsu, lauslega þýddri:

Það er ekki auðvelt að vera Einstæð Móðir

þá býr maður í tveggja herbergja í úthverfi, með húsaleigubætur

og allir aðrir í kringum mann eru líka einstæðar mæður eða útlendir verkamenn.

Og maður kemst aldrei neitt að heiman

því börnin eru þarna alltaf og taka mann allan

og á hillunni er enn myndin af honum sem maður átti þau með og maður

hélt að það gæti orðið eitthvað almennilegt með honum, og nú nennir

hann ekki einu sinni að koma og líta til þeirra eða gæta þeirra annað veifið um helgi

og maður er alltaf einn með hugsanir sínar

og manni finnst maður vera að staðna

og þegar það svo loksins tekst að fá konuna í næsta til að sjá um börnin

eitt kvöld og komast aðeins út á lífið og sjá eitthvað nýtt og hitta nýtt fólk

og þegar maður svo aldrei þessu vant fer ekki ein heim

þá verður gaurinn alltaf skelfingu lostinn og ætlar út um gluggann

þegar hann heyrir í börnunum.

Eða þá reiknar hann með að hann geti bara komið og gert það og farið því allir

vita að Einstæð Móðir er auðveld bráð -

það er ekki auðvelt að vera Einstæð Móðir.

Og ef það svo loksins hefur tekist

og maður hittir mann og maður kann við hann

og maður skilur hvað hvort annað er að segja

og maður getur haldist í hendur og horfst í augu án þess að finnast maður

vera Ghita Nørby og Ebbe Langberg í danskri kvikmynd frá 1960

og hann er ekki hræddur við börnin og þau kunna vel við hann og spyrja sjálf hvort þau megi kalla hann pabba

og maður er farinn að skipuleggja sumarið, viku suðreftir, og í fyrsta

skipti ætla þau að vera saman allan daginn frá morgni til kvölds

bara hann hún og börnin -

Og þá er það að bréfið skellur inn um lúguna einn morgun

bréfið frá konunni hans sem segir að hann sé giftur og eigi fjögur börn í Herlev-úthverfinu og fái ekki skilnað og komi ekki aftur

og þegar það bréf kemur

þá er ekki auðvelt að vera Einstæð Móðir.

En það er heldur ekki auðvelt að vera póstmaðurinn sem á að kasta þessu bréfi inn um lúguna [o.s.frv.]