Á FYRRI hluta næsta árs verður hleypt af stokkunum enskri útgáfu af þýska dagblaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ). Útgáfan er samvinnuverkefni FAZ og dagblaðsins International Herald Tribune (IHT).

Á FYRRI hluta næsta árs verður hleypt af stokkunum enskri útgáfu af þýska dagblaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ). Útgáfan er samvinnuverkefni FAZ og dagblaðsins International Herald Tribune (IHT). Þetta kemur fram í International Herald Tribune nýlega.

Ensku útgáfunni af FAZ verður dreift í Þýskalandi og mun fylgja með IHT sem þar er dreift. Blaðið verðursett saman af 6-8 blaðsíðum af fréttum og fleira efni úr FAZ frá sama degi. Ritstjórar FAZ bera ábyrgð á ensku útgáfunni en sérstakur hópur blaðamanna með sérþekkingu á Þýskalandi og góða enskukunnáttu mun skrifa efni blaðsins og hafa aðsetur í húsakynnum FAZ í Þýskalandi. Enska útgáfan verður einnig á Netinu.

Peter C. Goldmark jr., stjórnarformaður og forstjóri IHT, segir samstarf IHT og FAZ á breiðum ritstjórnar- og viðskiptalegum grunni. Að hans sögn eiga bæði dagblöðin sér langa sögu af þjónustu við þá sem krefjast blaðamennsku í hæsta gæðaflokki.

Guenther Nonnenmacher, ritstjóri FAZ, segir um samstarfið við IHT: "Þetta staðfestir að FAZ er rödd Þýskalands í heiminum um leið og það er þýskt dagblað." Ritstjóri IHT segir samstarfið leiða saman tvær af sterkustu fréttastofum heims. "FAZ er með þessu að opna enskumælandi lesendum dyr að Þýskalandi, miðju evrópsks efnahagslífs."

IHT er í eigu The New York Times og The Washington Post og eru fréttir unnar af blaðamönnum um allan heim. IHT er prentað í 19 borgum víðs vegar um heiminn og upplagið er um 232.000 eintök. Hjá FAZ er áhersla lögð á fréttir og viðskipti og er blaðinu dreift í um 411.000 eintökum. FAZ er eitt af stærstu dagblöðum í Þýskalandi.