Jean-Baptiste Siméon Chardin (1699-1779), var töframaður nálgunar og þagnar í hinu hreina, tæra málverki úr heimi hvunndagsins, skipar þar sérstöðu í franskri myndlist. Heimspekingurinn Descartes taldi hann höfuðmeistara tímanna varðandi þau náttúrusköp, djúpu og myndrænu gildi, sem veigamest teldust í tilorðningu málverks. Hér er fjallað um yfirlitssýningu á verkum Chardins í Grand Palais og lífsferil hans.
Frakkar halda um þessar mundir upp á 300 ára fæðingarafmæli hins sérstæða málara, Jean-Baptiste Siméon Chardin, með allstórri sýningu í Stóru höllinni við Signubakka. Hún gat trauðla orðið meira en allstór, því málarinn var seinvirkur með afbrigðum, lifði þó á tímum er menn dýrkuðu helst glæsileika, fljótvirkni og flottheita á myndfleti. Var af samtíð sinni sakaður um seinvirkni, jafnvel leti, svona líkt og Cézanne löngu seinna, en sá lifði á þeim tímamótum iðnbyltingarinnar er báru í sér kímið af ógnarhraða nútímans, krafan um hröð verklok stöðugt óvægari. En sannir málarar spyrja ekki um hraða, heldur eðlislægan hrynjandi er hæfir og aðlagast myndsköpun þeirra. Eru hér Vermeer og Chardin einna ljósustu dæmin.

Chardin var Parísarbúi út í fingurgóma, borinn þar og grafinn, leit dagsins ljós í þeirri merkilegu og nafnkenndu götu rue du Seine, og lifði þar lengstum. Flutti um set í Louvre fyrir náð konungsins 1756, er bauð honum íbúð í höllinni og jafnframt þau forréttindi að ráða staðsetningu verka sinna í sérinnréttaðri álmu, Salon, fyrir málverk. Umskiptin skeðu í raun einungis tæpum 1000 metrum frá fyrri íverustað. Seinna, eða 1764, fól konungur honum að skreyta þrjú háhlið hallarinnar í Choisy með líkingarmyndum yfir list, tónlist og vísindi. Faðir Chardins var listasmiður húsgagna, og þrátt fyrir nám í vinnustofum tveggja meistara málverksins á árunum 1718-20 og 1720-28, innritaðist hann fyrir orð föðurins einnig í verklegt nám í Académie St-Luc, 1724. Þar átti sonurinn að fullnuma sig í sjálfu handverkinu við gerð kyrralífsmynda. Trúlega var það gæfa hins unga manns líkt og öldum seinna Otto Dix, þótt þar væri röðin öfug, Dix varð að hafa firna mikið fyrir því að sanna sig í handverkinu áður en honum leyfðist að ganga í listaskóla. Bæði dæmin sanna ljóslega að undirstöðulærdómur hefur aldrei skaðað neina listspíru því viljinn og hæfileikarnir eru engan veginn nóg.

Á akademíinu mun því verklega í málverkinu rækilega hafa verið haldið að hinum unga manni, sem virðist að öðru leyti hafa notið akademísks frelsis. Í öllu falli bera fyrstu myndir hans sterk persónuleg einkenni í bland við hollensk áhrif, þótt einnig beri aðrar keim af hreinni handverkslegri skólun.

Chardin sýndi á Salon ungra málara allnokkrar myndir árið 1728, og hlýtur fyrir þær óspart lof meðlima Konunglegu akademíunnar, er leiddi svo til þess að hann var fljótlega tekinn inn í hina virðulegu samkundu, sem dýra- og ávaxtamálari. Þrátt fyrir viðurkenninguna var lítið um skotsilfur næstu árin og 1730 tekur hann boði um að lappa upp á skreytingar í húsakynnum Franz I í Fontainebleau. Þrátt fyrir menntunargrunninn snýr Chardin sér fljótlega meir og meir að málun mannamynda, efniviðinn sækir hann í hversdagslíf Parísarborgar. Hér er hann einnig undir áhrifum hollenzkra málara hvunndagsins líkt og David Teniers og Gerard Dou, sem eru afar skýr í myndinni af þvottakonunni sem fylgir þessu skrifi. Í þeirri grein létu meistaraverkin ekki bíða eftir sér og fram koma fljótlega þau fínu sálrænu brigði í heildarsvip málverkanna, er urðu kennimark listar hans og hann skilgreindi sjálfur í einni knappri setningu; Maður vinnur í litum en málar með tilfinningunni.

Hér er ekki úr vegi að nefna, að það var uppgangur borgarastéttarinnar sem fæddi af sér myndlist er beindist öðru fremur að eftirgerð og lýsingum á hvunndeginum og almennum fyrirbærum í umhverfinu. Lánaðist Chardin öðrum fremur að uppfylla þessar nývöktu þarfir með djúpri og samræmdri nánd í myndum sínum Þetta féll Diderot vel í geð, og skrifaði; að málverk Chardins væru náttúran sjálf, hrein og bein. Hlutirnir þrengdu sér út úr myndunum, og sannverðugleiki þeirra blekkti augað. En með allri virðingu fyrir hinum mikla og djúpvitra heimspekingi, mun það engan veginn vera þetta sem hrífur á vorum tímum, öllu fremur hið gagnstæða. Hið efnismikla sértæka og aðdáunarverða málverk, sem í látleysi sínu þrengir sér á vit skoðandans með töfrum handan tíma og rúms. Og það er ei heldur yfirmáta sannverðugt raunsæi myndanna, því skoðandinn skynjar einnig eitthvað óáþreifanlegt sem þó er til staðar, og æðra öllu raunsæi. Veröld sem er máttugri en það sem augað nemur, í stöðugri gerjun og endurnýjun. Hinn efniskenndi ríkidómur litaspjaldsins og töfrandi slikjukennda birta er líkt og opinberun þess sem var, er og verður. Hvar sem Chardin bar niður og hvað hann nú málaði, eru myndir hans ekkert annað en kyrralíf, nature morte, allt í föstum óbifanlegum skorðum, og þó svo þrungið lífi. Ósjálfrátt andvarpar skoðandinn frammi fyrir þessum myndum, sem eru svo yfirmáta stórar og máttugar í smæð sinni og látleysi, bera í sér firna mikil skilaboð um líf og hreyfingu í óbifanleika sínum.

Chardin var jafnan í nánu sambandi við myndefnin og þakti stigmögnun og skugga viðfanga sinna í þeim mæli staðlitum, að hinir veiku og brotnu tónar fengu yfir sig fullkomlega samkvæman heildarsvip. Einhvern veginn á þá veru að raunveruleikinn sýndist streyma út úr myndunum. Þetta formræna myndbyggingarferli, með hinum föstu efniskenndu og mettuðu pensilstrokum, var einstakt fyrirbæri í frönsku átjándu aldar málverki. Sem málari nándarinnar og hins hljóðláta lífs á vettvangi hvunndagsins uppskar hann ómælda virðingu. Vald Chardins á myndmiðlunum og dirfska í myndbyggingu, hvort heldur olíu eða pastel ásamt fjölhæfni í gerð kyrralífsmynda hreif hvorutveggja borgarastéttina sem aðalinn, ásamt því að lægri stéttum hugnaðist meira en trúlega myndefnavalið.

Dæmigert er málverk Chardins af unga drengnum, Auguste-Gabriel Godefroy, syni skartgripasala nokkurs. Hefur verið skilgreint á þann veg, að þar bregði listamaðurinn upp sviðsmynd þögullar ljóðrænnar heildar, sem er hafin yfir tíma og rúm, sameinar á þá veru tvær tegundir túlkunar mynd og hvunndag. Lítill og fínlegur hallar drengurinn sér að borðbrúninni, hann er nú þegar klæddur í föt fullorðinna og samkvæmt 18. aldar tísku hirðarinnar. Í stað þess að sinna námsefni sínu, horfir hann dreymnum augum á leikfang sitt, skopparakringluna á borðinu, og hefur ýtt námsefninu til hliðar til að rýma fyrir ferð hennar, léttum og ljúfum dansi um borðplötuna. Meðvitað hefur Chardin takmarkað sig við örfá myndatriði til að geta helgað sig þeim og dregið þau fram af meiri krafti. Þarmeð nær hann þeirri samþjöppun, sem gefur formunum eigið líf. Milt samræmt ljós dregur fram og markar útlínurnar og stigmagnast eftir þörfum. Mestu birtumögnin eru á andliti drengsins, lýsa það upp svo það verður líkst fínasta postulíni. Fleiri lýsandi birtumögn koma fram í skriftarfjöðrinni, skopparakringlunni og pappírsrúllunni, sem dreifir þeim um myndflötinn, skapar andstæður og jafnvægi í myndbyggingunni. Blæbrigðaríkidómur heitra brúntóna, sem grænir og rauðir tónar auðga, eru loks til vitnis um hið næma og þjálfaða auga og einstæða litaskyn málarans.

Meinlegt að það þurfti að koma fyrir Chardin, sem verst getur hent málara, einkum af hans gráðu. Augnsjúkdómur tók að herja á hann sem var honum er á leið æ meiri fjötur um fót við málaratrönurnar. Svo fór að um 1770 hættir hann með öllu að mála með olíu, í stað þess sneri hann sér að pastellitum, sem var óvenjuleg tækni á þeim tímum, og miðaði stærð mynda yfirleitt við myndefnin, sem voru mestmegins andlit.

Hér kemur snilli Chardins vel fram í sjálfsmyndinni með gleraugun, sem fyrir stígandann og birtumögnin ber öll stíleinkenni hans, vinnubrögðin eru fyrir sumt nær málverki í olíu en rissi í pastel, sér í lagi í mildri áferðinni. Listamaðurinn virðist líka hafa hugsað meira sem málari en teiknari í útfærslu pastelmynda sinna, að öllu samanlögðu stórum minna en um að draga fram hin sérstöku einkenni pastellitanna líkt og Degas löngu seinna. Sér enn frekar stað í hinni frægu mynd af konu hans og þó er meira en greinilegt að um pastelliti er að ræða, einkum ef vel er rýnt í tæknibrögðin. Sum viðfangsefna sinna átti Chardin til að mála í fleiri útgáfum og gerði svo vel og meistaralega að munurinn verður lítt greindur, sem sýnir nákvæmni hans og hin þjálfuðu vinnubrögð. Hins vegar hafa þær elst misvel og í því liggur helstur munurinn, kemur einkum fram í málverkinu af konunni að afhýða ávexti, en ein útgáfan er verr farin en hinar, sprungur í bakgrunninum. Má alveg vera að hann hafi einnig verið að gera tilraunir með olíur, og á þessa hlið í list meistarans er lögð drjúg áhersla á sýningunni í París, og mátti sjá fólk rýna lengi og vel í myndirnar og reyna að greina einhvern mun.

Það átti fyrir Chardin að liggja sem ýmsum meisturum aldanna, að frægð hans dalaði er ný viðhorf ruddu sér rúms. Einnig gerði augnsjúkdómurinn það að verkum, að hann átti æ erfiðara með að sinna opinberum störfum og 1774 neyddist hann til að segja af sér sem féhirðir akademíunnar. Þegar hann svo lést 1779 tóku menn varla eftir því, ný kynslóð sígildrar akademískrar menntunar hafði tekið við, sem lagði meiri áherslu á sögulegt innihald og gljáandi og þurran málunarhátt, hluti sem skorti fullkomlega í málverkum Chardins.

París, Grand Palais, til 22 nóvember. Sýningin heldur áfram til listahallar Düsseldorf 5.12- 20.2., London, Royal Academi of Arts 9.3- 28.5. New York Metropolitan Museum of Art 19.6.-17.9. Sýningarskrá í stóru broti 360 síður, 240 F, 36,59 EU.

EFTIR BRAGA ÁSGEIRSSON