Afi Konni hefur kvatt þennan heim saddur lífdaga og fer nú til móts vð ömmu Pöllu sem lést fyrir 11 mánuðum, og Guðmund son sinn sem lést langt um aldur fram. Þegar amma dó varð afi afskaplega einmana, lífsförunautur hans til svo margra ára hafði kvatt þennan heim og biðin eftir endurfundum varð styttri en nokkurn grunaði. Afi Konni var svo ljúfur maður og góður. Á yngri árum kom maður oft við hjá honum í skúrnum niðri á bryggju til að næla sér í harðfisk og voru móttökurnar ætíð góðar. Í litla húsinu á Hafnargötunni bjuggu þau amma og afi allan sinn búskap og alltaf var gott að koma í heimsókn til þeirra, sitja hjá þeim og spjalla og svo hafði afi einstakt lag á ömmu þar sem hann spurði hana oft og mörgum sinnum hvort hún ætti ekki eitthvað að gefa okkur í gogginn. Aldrei máttum við fara án þess að smakka eitthvert góðgæti. Hann afi Konni kenndi mér að borða skyr með mjög sérstökum hætti. Ég sé þetta ljóslifandi fyrir mér, afi situr við eldhúsborðið og sýnir hvernig á að bera sig að. Stíflugerð var hin mesta kúnst, einkum þegar minnka tók í skálinni. Þetta þótti mér dálítið skrýtið því fullorðna fólkið brýndi fyrir manni að maður mátti alls ekki leika sér með matinn. En afi gerði það nú samt.

Afi var hinn mesti hagyrðingur og liggja eftir hann fjölmargar vísur sem bera vott um hans miklu kímnigáfu. Ég þakka fyrir það í dag að pabbi minn tók sig til fyrir stuttu og bað afa um að lesa vísur sínar inn á segulband.

Margar góðar minningar á ég um hann afa og ég er þakklát fyrir að strákarnir mínir fengu að hitta hann og þeir munu ætíð minnast langafa Konna á Sigló.

Megi minning um ljúfan afa lifa.

Auður