Í dag, laugardaginn 6. nóvember, er til moldar borinn frá Landakirkju í Vestmannaeyjum mágur minn og vinur okkar hjóna, Njáll Andersen, Sólhlíð 19, Vestmannaeyjum.

Ég átti því láni að fagna sem unglingur að dvelja á heimili Njáls og Dóru systur minnar, fyrstu árin mín í Eyjum og njóta um leið handleiðslu hans við námið í vélsmiðjunni Magna hf. sem hann stýrði ásamt sameigendum sínum.

Það var gott að kynnast hans viðhorfum til lífsins og vinnunar, þar sem stundvísi og reglusemi var í fyrirrúmi. Það var ekki tilsögn með stórum orðum heldur bent á með föðurlegri hógværð, hvað betur mætti fara og lagði hann þá gjarnan um leið áherslu á að sinna bæri hverju verki af nákvæmni og vandvirkni.

Njáll hafði á unga aldri numið vélsmíði hjá Guðjóni Jónssyni vélsmíðameistara sem var af öllum sem til þekktu talinn einn af færustu mönnum í sínu fagi á þeim tíma. Að námi loknu í Vélsmiðju Guðjóns hélt Njáll til Danmerkur til frekara náms.

Eftir heimkomuna stofnaði hann Vélsmiðjuna Magna hf. í Vestmannaeyjum með Guðjóni sem áður er getið, Vigfúsi Jónssyni, Ólafi Ólafssyni og Óskari Sigurhanssyni. Þetta var samstilltur hópur sem hafði það að meginmarkmiði að þjóna bátaflota Vestmannaeyja og um leið öllum þeim sem þurftu á vélsmíði að halda.

Það var ekki auðvelt að sinna vélaviðgerðum á þeim tíma, varahlutir voru ekki alltaf við höndina og stundum ófáanlegir. Var þessi vandi þó mestur á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar lokaðist fyrir viðskipti við Norðurlönd og meginland Evrópu. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að Njáll og félagar hans lyftu grettistaki á þessum árum, varðandi vélsmíði og þjónustu við báta og skip sem til þeirra leituðu. Þetta var oft mjög erfið vinna og aðstæður verri en í dag. Það fór því svo að Njáll bilaði í baki fyrir miðjan aldur vegna þessa, en náði sér þó að nokkru þó að ekki yrði hann jafn góður eftir. Njáll var vel af Guði gerður og lét þessi veikindi ekki aftra sér frá því að koma á fótboltaæfingar með okkur smiðjustrákunum, enda var það svo að það voru ekki alvöru æfingar nema hann væri með.

Njáll var útivistarmaður og hafði ferðast víða um landið á sínum yngri árum þó að ekki væri það alltaf auðvelt í þá daga. Hann hafði meðal annars farið á hestum með félögum sínum inn í Landmannalaugar og hrifist af litadýrðinni og fegurð fjallanna þar. Það var okkur því sérstök ánægja að geta boðið þeim Njáli og Dóru ásamt Steinunni systur minni og Gunnhildi dóttur hennar í ferðalag inn í Landmannalaugar með nútíma ferðamáta.

Þau komu fagran sólskinsdag með flugvél á Bakka þar sem við ferðafélagarnir vorum mættir. Þaðan var ekið inn í Laugar, komið við hjá okkar stórvirkjunum á leiðinni til baka.

Þaðan var ekið niður á Bakka þar sem flugvélin beið þeirra og skilaði þeim heim, að lokinni ánægjulegri skemmtiferð.

Það var, eins og oft áður, gott að njóta félagsskapar þeirra hjóna í þessari ferð, þar sem gleðin yfir góðum degi og fögru landi var ráðandi.

Við hjónin viljum þakka Njáli samfylgdina og allt það góða sem hann lét okkur í té um leið og við biðjum góðan Guð að styrkja Dóru og hennar fjölskyldu.

Margrét og Kjartan