Í örfáum orðum langar okkur að kveðja kæran samstarfsfélaga og vin okkar Eirík Jónsson. Í nokkur ár hefur hann starfað sem næturvörður á Heilsustofnun NLFÍ, og verið í nánu samstarfi við okkur starfsfólk hjúkrunarvaktar. Við skyndilegt fráfall hans er okkur efst í huga söknuður, en jafnframt þakklæti fyrir góð kynni, og einstaklega vel unnin störf. Eiríkur var með eindæmum samviskusamur og vandvirkur maður, ljúfur og hæglátur, en alltaf stutt í glettni og gamansemi. Hann hafði gaman af að spjalla um menn og málefni, og var oft glatt á hjalla á næturvöktunum hjá okkur þegar við borðuðum saman, eða spjölluðum yfir kaffibolla. Nærvera hans var alltaf þægileg, hann var alltaf til staðar ef á þurfti að halda, og verður skarð hans vandfyllt.

Kæri vinur, við kveðjum þig með söknuði og trega og biðjum góðan Guð að styrkja eiginkonu þína og fjölskyldu alla á erfiðum tímum.

Starfsfólk hjúkrunar HNLFÍ