Ein af mínum uppáhaldsminningum frá því þegar ég var lítill strákur er vorið. Ég fékk stundum að taka prófin í skólanum á undan hinum krökkunum vegna þess að ég var að fara í sauðburð í sveitina. Þegar ég var tíu ára fannst mér ég kunna leiðina milli Akureyrar og Mývatnssveitar utanbókar og fannst alltaf jafn mikið til þess koma að geta sagt leiðsögumanninum að ég væri að fara í sveit í Ytri-Neslöndum. Sjálfsagt hefur hann hugsað með sér að það yrði ekki mikið gagn að þessari horrenglu sem gat varla haldið á töskunni sinni. En þrátt fyrir það var þetta grey alltaf velkomið í Neslöndum og rúmlega það. Þar var Geiri hluti af stórri heild sem tók mér og Stebba bróður mínum alltaf jafn opnum örmum. Geiri, eins og allir á heimilinu, virtist búa yfir endalausri þolinmæði til þess að sýna mér heiminn og kenna mér á allt milli himins og jarðar. Þó eru einstaka minningar sterkari en aðrar, eins og þegar við sátum saman og hann var að sýna mér hvernig á að skyggna egg. Eitthvað langaði mig til þess að sýnast mikill maður og ætlaði að kenna honum að kreista egg án þess að brjóta það. Það tókst mér ekki og fyrr en varði lak eggjarauðan yfir lappirnar á honum. Eftir stuttan hvell var mikið hlegið að þessu öllu saman eins og svo oft í sveitinni.

Það er ekki hægt að minnast Geira án þess að minnast á fuglana hans. Á hverju sumri virtist sem litla herbergið hans væri stöðugt að minnka en raunin var sú að það var að fyllast af uppstoppuðum fuglum. Smátt og smátt kenndi hann mér nöfnin á þessum fuglum og lánaði mér Fugla Íslands og Evrópu. Þannig gat ég setið tímunum saman í herberginu hans og blaðað í henni fram og aftur því "litla prófessorinn" langaði stundum til að vera eins og Geiri í sveitinni og vita allt um fuglana við vatnið. Síðan þegar ég hóf störf sem leiðsögumaður og aðrir leiðsögumenn vildu endilega benda mér á sniðugt fuglasafn á bóndabæ í Mývatnssveit til að sýna túristum ef lítið væri um fugla á vatninu gat ég alltaf sagt með stolti: "Ertu að meina safnið hans Geira frænda míns?"

Síðastliðin tvö sumur hef ég komið a.m.k. átta sinnum í Mývatnssveit með hópa af erlendum ferðamönnum. Ekki einu sinni hefur mér verið fært að sýna þeim safnið hans Geira. Það er erfitt að ætla sér að kenna einhverju um eða afsaka sig með tímaleysi. Þegar svona hræðilegur atburður á sér stað eru slíkar hugsanir óraunverulegar og innihaldslausar. Þá er betra að láta hugann reika, minnast liðins tíma og tína til það sem hlýjar manni alltaf um hjartaræturnar. Um leið og ég er óendanlega þakklátur fyrir að Geiri er ein af æskuhetjunum mínum sé ég jafn mikið eftir því að hafa ekki komið við í Neslöndum síðast þegar ég átti leið um sveitina. Því þegar haf og lönd skilja á milli eins og núna verða þessi örfáu orð máttlítil og of fá.

Elsku Stebbi, Stína og allir í Neslöndum. Þó svo að ég sitji enn á skólabekk og eigi sjálfsagt eftir að sitja þar dálítið enn megið þið vita að margt af því mikilvægasta og besta sem ég hef lært í lífinu, lærði ég í sveitinni hjá ykkur öllum. Megi allt gott styrkja ykkur í sorginni.

Kveðja,

Tryggvi Már