Elsku Bjarni afi, við tileinkum þér þennan sálm og vitum að allt tekur enda, lífið líka. Engu að síður er sárt að sjá á eftir þér og við munum sakna þín sárt, við vitum að nú líður þér vel. Nú þegar komið er að kveðjustund koma upp í hugann margar góðar minningar.

Hlýlega hugsum við til allra samverustundanna sem við höfum átt með þér og ömmu í Eyjaholtinu gegnum árin. Heimili ykkar var okkar annað heimili á uppvaxtarárunum og vorum við vön að koma oft á dag, stundum bara til að segja hæ og fá eitthvað gott í munninn en oftast til að spila rommý og fá að hnýta á. Eftir að heilsan fór að bresta og þú þurftir að dvelja á sjúkrastofnunum sváfum við oft hjá ömmu, því ekki vildum við að amma væri ein. Öll jól frá því við munum eftir okkur hafið þið amma verið hjá okkur fjölskyldunni á aðfangadagskvöld. Þennan dag á hverju ári biðum við alltaf með eftirvæntingu eftir ykkur, því þegar þið komuð þá vissum við að jólin væru komin. Gegnum öll þín veikindi hefur gengið á ýmsu, oft komu mjög erfiðir tímar þar sem mikil veikindi hrjáðu þig, en með baráttu og þrjósku tókst þér alltaf að ná þokkalegri heilsu aftur.

Eftir að þú, afi, fluttir úr Eyjaholtinu hefur margt breyst í þínu lífi, þú stoppaðir stutt við á Hlévangi vegna heilsubrests, þaðan fórst þú á Garðvang þar sem þið amma voruð loks saman á ný. Þar var ávallt jafn gott að koma til ykkar og voruð þið alltaf þakklát fyrir innlitið.

Elsku amma, við vottum þér samúð okkar og vitum að Guð er með þér og styrkir þig.

Linda og Bjarni