Yfir Mývatnssveit hvílir sorg í dag þegar við kveðjum Sigurgeir Stefánsson hinstu kveðju. Mannlíf í sveitum er þýðingarmikið og í okkar litla samfélagi, þar sem allir þekkjast meira og minna er hver einstaklingur afar mikilvægur. Við megum vart af neinum sjá og er okkur nú brugðið þegar ungur lífsglaður maður er hrifinn frá okkur í einu vetfangi.

Geiri í Neslöndum, eins og hann var alltaf kallaður, bjó alla sína ævi í Ytri-Neslöndum. Þar bjó hann með foreldrum sínum, þeim góðu hjónum Kristínu og Stefáni, ásamt fleirum úr samheldinni fjölskyldu. Sextán ára gamall hóf Geiri störf hjá Kísiliðjunni og vann þar fram á síðasta dag. Fyrstu árin vann hann eingöngu við framleiðsluna, en frá 1987 vann hann við dælingu hráefnis úr Mývatni á sumrin og við framleiðsluna á veturna. Á vorin þegar farið var að undirbúa dælingu hýrnaði yfir Geira því á vatninu naut hann sín vel og þekkti hann það manna best. Geiri var traustur starfsmaður og góður vinnufélagi, úrræðagóður og ósérhlífinn og verður skarð hans vandfyllt.

Þegar ég minnist Geira kemur fyrst upp í hugann brosið, fjörið og krafturinn sem geislaði frá honum. Hann hafði þessa ómetanlegu eiginleika að geta við öll tækifæri lífgað upp á umhverfið með léttleika sínum og góða skapinu sem virtist óþrjótandi. Hann var mikið náttúrubarn enda fæddur og uppalinn á bökkum Mývatns. Þekking hans á fuglum og áhugi var mikill og af miklum dugnaði kom hann sér upp góðu safni uppstoppaðra fugla í hlaðvarpanum heima í Neslöndum. Hefur þetta safn vakið verðskuldaða athygli. Þá kom Geiri sér upp, í félagi við bróður sinn og mág, góðri aðstöðu til að þjónusta sveitunga sína með hjólbarða og hefur lipurðin alltaf verið þar í fyrirrúmi.

Ég vil þakka Geira fyrir samstarfið í gegnum árin og bið Guð að vaka yfir vinum mínum í Neslöndum.

Megi minning Sigurgeirs Stefánssonar lifa meðal okkar.

Gústav Nilsson