Með Agli á Hnjóti er genginn merkur brautryðjandi og hugumstór hugsjónamaður sem skilur eftir sig ómetanlegt ævistarf fyrir sveit sína og íslenskt samfélag. Það sýnist ekki langur tími frá því Egill hóf að safna munum og minjum, sem verið höfðu uppistaðan í daglegum störfum forfeðranna, en voru óðum að hverfa, og hver að verða síðastur að taka þá og geyma. Þegar ég kom fyrst að Hnjóti voru safngripirnir á efri hæð íbúðarhússins. Það var einstök og ógleymanleg upplifun að skoða safnið í samfylgd Egils, njóta leiðsagnar hans og skynja einlæga gleði hans yfir að hafa bjargað þessum þjóðlegu verðmætum frá glötun. Árin liðu og safnið óx og er nú orðið slíkt að umfangi og orðspori að erfitt er að hugsa sér Vestfirðinga án þess. Með óþrjótandi áhuga og eljusemi náði Egill ótrúlegum árangri og lyfti byggðarlagi sínu og Vestfjörðum öllum í vitund þjóðarinnar. Straumur ferðafólks sem leggur leið sína vestur á firði vex með hverju árinu og mér segir svo hugur um að safnið á Hnjóti eigi stóran hlut þar í. Það má vel vera að allir, sem hlut eiga að máli, séu ekki búnir að gera sér grein fyrir þessum mikilvæga þætti málsins. Nú reynir á vestfirska og aðra íslenska ráðamenn að þeir sjái til þess að hið mikla brautryðjendastarf verði ekki látið koðna niður að Agli gengnum, þess í stað verði haldið áfram hinu merka söfnunar- og varðveislustarfi, óbornum kynslóðum til ómetanlegs fróðleiks um íslenskt þjóðlíf fram að dögum tæknibyltingarinnar sem hélt innreið sína á fyrri hluta þessarar aldar.

Vinátta okkar Egils óx með árunum og tilfinning mín frá okkar fyrstu kynnum um hjartahlýju hans, einlægni og vinfestu styrktist. Þar fór maður sem var vinur vina sinna og lét sig ekki muna um að rétta hjálparhönd þar sem því varð við komið. Hann var óhræddur við að mæta mótspyrnu. Þegar hann barðist fyrir framgangi þess sem hann bar fyrir brjósti, var hann jafnframt búinn lagni, sveigjanleika og lipurð til þess að takast á við hvers konar andspyrnu og erfiðleika og ná sínu fram að lokum án þss að skugga bæri á mannleg samskipti.

Egill stóð ekki einn í sínu mikla þjóðnytjastarfi. Við hlið hans stóð eiginkonan, Ragnheiður Magnúsdóttir, hverrar hlutur er ekki smár. Ég færi henni og fjölskyldunni samúðarkveðjur okkar hjóna.

Örlygur Hálfdanarson